Skerða skegg sitt og búa sig undir að flýja

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams eru farnir að skerða skegg sitt og skipta um felustaði í Mósúl, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir íbúum borgarinnar. Hersveitir Írakshers nálgast borgina æ meira með hverjum deginum sem líður og eru hersveitir nú í innan við fimm kílómetra fjarlægð frá borginni.

Tíu dagar eru nú frá því að Íraksher og bandamenn þeirra hófu sóknina á Mósúl. Hershöfðingjar Bandaríkjamanna og bandamanna hafa greint frá því að sjónum verði næst beint að öðru höfuðvígi Ríkis íslams, borginni Raqqa í Sýrlandi.

AFP hefur eftir nokkrum borgarbúum í Mósúl að svo virðist sem einhverjir vígamenn Ríkis íslams búi sig nú undir að yfirgefa borgina. „Ég sá nokkra meðlimi Ríkis íslams og þeir litu gjörólíkt út frá því að ég sá þá síðast,“ sagði Abu Saif, íbúi í austurhluta Mósúl. „Þeir voru búnir að snyrta skegg sitt og skipta um föt. Þeir hljóta að vera hræddir .... þeir eru væntanlega að búa sig undir að flýja borgina.“

Íbúar og yfirmenn í Íraksher segja vígamenn samtakanna hafa flutt sig til innan borgarinnar, frá austurhluta borgarinnar að virkisveggjum á vesturbakka árinnar Tígris, sem liggur nær flóttaleiðum til Sýrlands.

Tugir þúsunda íraskra hermanna hafa sótt að borginni úr suðri, austri og norðri frá því að áhlaupið hófst 17. október og heyrist nú vel til hersveitanna að sögn íbúa borgarinnar. Áhlaupinu en ætlað að ná síðustu stóru borginni í Írak úr höndum hryðjuverkasamtakanna.

Talið er að á bilinu 3-.5000 vígamenn Ríkis íslams séu í Mósúl, sem er önnur stærsta borg Írak, ásamt rúmlega milljón íbúum sem eru þar innlyksa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert