May kynnir Brexit-drög fyrir ráðherrum

Samningsdrögin eru lykiláfangi í samningaviðræðunum, sem hafa verið strang­ar und­an­farna …
Samningsdrögin eru lykiláfangi í samningaviðræðunum, sem hafa verið strang­ar und­an­farna daga og eru sagðar á loka­metr­un­um. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, situr nú á fundi með ríkisstjórn sinni þar sem hún kynnir drög að Brexit-samningi en samn­ingsaðilar beggja vegna borðsins í Brex­it-viðræðunum hafa samþykkt tækni­leg atriði út­göngu­samn­ings Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Í gær ræddi May við ráðherr­ana á ein­stak­lings­fundi þar sem hún ræddi drög samn­ings­ins við þá hvern fyr­ir sig. Stjórnmálaskýrandi BBC fullyrðir að sumir ráðherranna hafi sett ströng skilyrði, muni þeir samþykkja drögin. Samkvæmt Guardian eru samningsdrögin um 400 síður, mestmegnis lagatexti.

Samningsdrögin eru samt sem áður lykiláfangi í samningaviðræðunum, sem hafa verið strang­ar und­an­farna daga og eru sagðar á loka­metr­un­um, en líkt og í samningaferlinu almennt eru landa­mæri Írlands það helsta sem út af ber.

Frá því að fregnir bárust af því að samningsdrögin væru klár styrktist pundið lítillega, um 0,12% gagnvart dollaranum og 0,16% gagnvart evrunni.

Samningsdrögin verða að vera samþykkt af bresku ríkisstjórninni, breska þinginu og öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Sendiherrar aðildarríkjanna 27 munu koma saman í Brussel í dag til að ræða drögin.

Stefnt er að því að halda leiðtogafund í lok mánaðarins þar sem skrifað verði undir samningsdrögin. Á þeim fundi á einnig að ræða hvernig samskiptum Bretlands og ESB verður háttað eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem áætluð er 29. mars á næsta ári.

Óvíst er hvort drögin verði samþykkt og hefur þingmaðurinn Jacob Rees-Mogg, einn helsti stuðningsmaður Brexit, lýst því yfir að hann sé svo óánægður með drögin að hann gæti hætt að styðja May.

Þá hefur Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og núverandi þingmaður, sagt að hann muni ekki samþykkja drögin og að ríkisstjórn May hafi mistekist að verja Bretland. 

Julian Smith, þingflokksformaður Íhaldsmanna, hefur hins vegar sagt að hann sé sannfærður um að samningsdrögin muni komast í gegnum þingið.

Hér má fylgjast með beinni lýsingu breska ríkisútvarpsins frá framvindu Brexit-viðræðna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert