18 ár í Jemtland-máli

Svein og Janne Jemtland á ferðalagi í Djibouti í Afríku …
Svein og Janne Jemtland á ferðalagi í Djibouti í Afríku á meðan allt lék í lyndi. Hjónabandi þeirra lauk á sviplegan og hörmulegan hátt þegar Svein skaut eiginkonu sína, 36 ára gamla tveggja barna móður, í höfuðið með hálfsjálfvirkri níu millimetra Makarov-skammbyssu þegar þau hjón deildu heiftarlega aðfaranótt 29. desember síðastliðins. Ljósmynd/Twitter/Úr einkasafni

Dómur í hinu óhugnanlega máli Jemtland-hjónanna, Svein og Janne, féll rétt í þessu í Héraðsdómi Hedmark í Hamar, norðan við Ósló, og var það einróma dómsorð Trond Christoffersen héraðsdómara og meðdómenda hans að Svein Jemtland sæti fangelsi í 18 ár fyrir að skjóta konu sína í höfuðið af örfárra sentimetra færi með níu millimetra Makarov-skammbyssu aðfaranótt 29. desember síðastliðins og varpa líkama hennar síðar um nóttina í ána Glommu þar sem hann fannst rétt fyrir miðjan janúar.

Fljótlega upp úr áramótum tóku böndin að berast að eiginmanninum sem hafði haft samband við lögreglu tæpum sólarhring eftir ódæðið og tilkynnt um hvarf konu sinnar. Ekki lét hann þar við sitja heldur gagnrýndi degi síðar hægagang lögreglu við að hefja leit að Janne.

Fregnir af hvarfinu fóru fljótlega sem eldur í sinu um hið kyrrláta byggðarlag Brumunddal í Hedmark og voru íbúar þar slegnir óhug yfir hvarfi þessarar ungu tveggja barna móður sem var hvers manns hugljúfi. Bauð engum í grun fyrstu dagana að eiginmaðurinn, sem virtist niðurbrotinn, ætti hlut að máli.

Framburður eldri sonarins

Svein var handtekinn 12. janúar eftir að hafa orðið margsaga í framburði sínum af atburðum eftir að þau hjón komu heim úr jólaboði um miðnæturskeið 28. desember og deildu heiftarlega vegna nýstofnaðs reiknings útlendingahersveitarmannsins fyrrverandi á stefnumótavefnum Tinder. Framburður eldri sonar þeirra hjóna, sem þá var 13 ára og var höfuðvitni ákæruvaldsins við meðferð málsins, olli straumhvörfum í rannsókninni og hefði mátt heyra saumnál detta þegar þétt setinn dómsalur héraðsdómstólsins í Hamar fékk að hlýða á upptökur af sláandi vitnisburði barnsins eins og mbl.is greindi frá í nóvember.

Norska ríkisútvarpið NRK greindi frá því að frásögn drengsins af rifrildi, háum hvelli og árangurslausri tilraun til að ná sambandi við móður sína með SMS-skeyti hefði fengið mjög á viðstadda í dómsalnum, alla nema Svein Jemtland sem einn hélt fullkomnum pókersvip og sýndi engin svipbrigði undir vitnisburði afkvæmis síns.

„Kaldrifjaður úthugsaður drápsmaður“

Ákærði neytti allra bragða til að firra sig sök í málinu, hélt því meðal annars fram að Janne heitin hefði fyrst dregið Makarov-byssuna, sem hún hefði átt, fram og hótað að skjóta mann sinn. Til átaka hefði komið sem borist hefðu út úr húsinu og hefðu hjónin að lokum fallið fram af palli við aðaldyr hússins og Janne þá skotið sjálfa sig í höfuðið af slysni. 

Þessa skýringu sagði Leif Øren, skot­vopna­sér­fræðing­ur rann­sókn­ar­lög­regl­unnar Kripos, útilokaða þegar hann kom fyrir dóminn sem vitni í nóvember. Sagðist Øren varla hafa getað hleypt af byssunni sjálfur vegna þess hve stífur gikkur hennar er og nær ókleift hefði verið að beina byssunni að höfði þess sem sjálfur héldi á henni og hleypa af skoti í þeirri stöðu: „Að beina þessu vopni að sjálf­um sér gef­ur mjög stutt skot­færi og um leið er mjög erfitt að taka í gikk­inn,“ sagði Øren í vitna­stúk­unni.

Iris Storås saksóknari sagði í lokaræðu sinni við réttarhöldin, 27. nóvember, að víg Janne Jemtland hefði verið „hrein aftaka“ og ásetningsstig ákærða, á þeim tímapunkti þegar hann hleypti af skotvopninu aðfaranótt 29. desember, hefði staðið til þess að ráða eiginkonu sína af dögum með köldu blóði. „Það sem við höfum fengið að heyra um hugarástand [Svein] dagana eftir verknaðinn styður mynd okkar af kaldrifjuðum úthugsuðum drápsmanni [n. en kald og kalkulerende drapsmann],“ voru lokaorð Storås í ræðunni um leið og hún krafði Christoffersen héraðsdómara um þyngstu refsingu fyrir mann sem ætti sér engar málsbætur.

Öruggt er að málinu verður áfrýjað.

Fréttir norskra fjölmiðla af dómsuppkvaðningunni í morgun:

Frá NRK

Frá VG

Frá Dagbladet

Frá TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert