Íbúar óttaslegnir vegna hvarfs Jemtland

Janne Jemtland yfirgaf heimili sitt í útjaðri smábæjarins Brumunddal í …
Janne Jemtland yfirgaf heimili sitt í útjaðri smábæjarins Brumunddal í Noregi aðfaranótt 29. desember. Ekkert hefur spurst til hennar síðan.

Bæjarbúar í Brumunddal í Noregi eru harmi slegnir vegna hvarfs Janne Jemtland, tveggja barna móður og eiginkonu. Ekkert hefur spurst til hennar síðan hún yfirgaf heimili sitt aðfaranótt 29. desember. Blóð hefur fundist tvívegis við leitina, á tveimur mismunandi stöðum, og nú hefur verið staðfest að bæði sýnin eru úr Jemtland.

Brumunddal er lítið bæjarfélag inni í landi, mitt á milli Hamars og Lillehammer. Salvar Geir Guðgeirsson, prestur og íbúi í bænum, segir fólk vera afar óttaslegið vegna málsins og hugsi mikið til fjölskyldunnar.

„Fólk er óttaslegið og ræðir þetta mikið þar sem mörgum spurningum er ósvarað. Þetta er frekar rólegur og friðsæll bær þannig að þetta kemur alveg flatt upp á fólk,“ segir Salvar í samtali við mbl.is. Hann hefur verið búsettur í bænum í þrjú ár og þjónar í Brumunddal og sveitinni í kring ásamt öðrum presti, en um tíu þúsund manns eru búsettir á svæðinu.

Salvar Geir Guðgeirsson, prestur, er búsettur í Brumunddal og segir …
Salvar Geir Guðgeirsson, prestur, er búsettur í Brumunddal og segir hann hvarf Jemtland hafa snert við íbúum bæjarins. Ljósmynd/Aðsend

Jemtland virtist hress og kát um kvöldið

„Þetta er mál sem hefur undið mikið upp á sig,“ segir Salvar. Í fyrstu var það aðeins til umfjöllunar hjá bæjarblaðinu í Brumunddal en eftir áramót komst málið í norska fjölmiðla og hefur nú teygt sig út fyrir landsteinana, meðal annars til Íslands.

Vika er nú liðin frá því að fjöl­skyld­an til­kynnti hvarf Jemt­land. Eng­inn hef­ur séð hana frá því að hún yf­ir­gaf jóla­boð í sam­komu­húsi 28. desember ásamt eig­in­manni sín­um. Vitað er að hún fór heim til sín en þaðan um klukk­an 2 um nótt­ina. Eng­in merki bár­ust frá síma henn­ar fyrr en um klukkan hálfsex um morg­un­inn.

Bróðir Janne, Terje Oppheim, er eini fjölskuldumeðlimurinn sem hefur tjáð sig um hvarf hennar við fjölmiðla. Hann segir þetta afar óraunverulega upplifun og að honum líði eins opg hann sé fastur í martöð. Hann fékk snapchat-skilaboð frá Janne fyrr um kvöldið þar sem hún virtist hress og kát. 

Það sem einna helst hefur vakið athygli fólks er að Jemtland yfirgaf heimili sitt stuttu eftir að hún kom heim úr jólaboðinu.

Salvar segir að fólk, og væntanlega lögregla, sé aðallega að velta því fyrir sér hvað gerðist eftir að hjónin komu heim eftir jólaboðið. „Það virðist ekki vera vitað hvenær hún fór nákvæmlega að heiman og hvernig hún endaði, að því er virðist, við jaðar bæjarins.“ Blóð úr Jemtland fannst einmitt á því svæði á fimmtudag.

Grafa notuð við leitina 

Mikil snjókoma síðustu daga hefur gert leitina afar erfiða. „Nú er svona 30 sentimetra snjór í bænum þar sem það snjóaði gríðarlega mikið á gamlárskvöld. Það sem gerir málið svo enn dularfyllra er að nú hefur fundist blóðspor sem er rúman kílómetra frá staðnum þar sem fyrst fannst blóð úr henni,“ segir Salvar.  

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins hefur lögreglan fengið gröfu til að leita í áburðarhaug á jörðinni þar sem blóðið fannst í gær. Leitin hefur hins vegar ekki borið árangur en var fyrst og fremst gerð til að útiloka ýmis atriði.

Heimavarnarliðið aðstoðar við leitina

Salvar hefur sjálfur gengið um svæðið þar sem blóðið fannst. „Fólk er að keyra þarna í kring og er forvitið og það var talsverð umferð um svæðið, hvort sem það voru leitarmenn eða hvað.“

Björgunarsveitir eins og þekkjast hér á landi eru ekki starfandi í Noregi en ýmsir aðilar hafa tekið þátt í leitinni. „Það eru lögreglumenn sjálfir frá fylkinu, Heiðmörk og Oppland, og þá hefur leynilögreglan og heimavarnarliðið aðstoðað við leit. Þeir hafa leitað dag og nótt um helgina í góðu veðri, björtu en köldu og 10-15 stiga frosti. En það er erfitt að leita þegar það er snjór yfir öllu.“ Greint  var frá því undir kvöld að leit hefði verið hætt í dag sökum myrkurs en hafist verður aftur handa í birtingu.

Salvar segir að málið hafi snert mikið við íbúum bæjarins, sem eru fyrst og fremst fjölskyldufólk og ellilífeyrisþegar. „Þetta er lítill, rólegur, landsbyggðarbær á norskan mælikvarða, í mikilli uppbyggingu reyndar. Þetta mál hefur snert við fólki.“

Minnir á mál Birnu Brjánsdóttur

Hann segir að málið minni sig óneitanlega á svipað mál sem skók íslensku þjóðina á svipuðum tíma fyrir ári. „Upplifun mín persónulega er að þetta minnir óneitanlega á hvarf Birnu Brjánsdóttur, fyrir ári, þegar fólki var mjög umhugað um örlög ungrar konu.“

Salvar vonast innilega til þess að mál Jemtland upplýsist en hann undirbúi sig þó undir það versta. „Ef allt fer á versta veg gæti þetta mál endað hjá okkur prestunum. Við vonum auðvitað hið besta en það er mjög slæmt ef týnd manneskja finnst aldrei. Þá sitja aðstandendur uppi með ósvaraðar spurningar.“

mbl.is