Var í jólaboði skömmu fyrir hvarfið

Janne Jemtland býr í bænum Brumunddal norður af Ósló.
Janne Jemtland býr í bænum Brumunddal norður af Ósló.

Níu sólarhringum eftir hvarf hinnar norsku Janne Jemtland er enn enginn grunaður um aðild að hvarfinu sem nú er rannsakað sem sakamál. Í dag koma niðurstöður úr blóðsýnarannsókn á blóði sem fannst við veg í Brumunddal í gær. Það blóð fannst í um kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem blóð, sem staðfest hefur verið að er úr Jemtland, fannst á fimmtudag. 

Jemtland er 36 ára tveggja barna móðir. Ekkert hefur spurst til hennar frá því að hún yfirgaf heimili sitt eftir klukkan 2 að nóttu 29. desember. 

Í frétt norska ríkissjónvarpsins um stöðu rannsóknarinnar segir að það hafi verið göngufólk sem fann blóðslóð í gær. 

Leit verður haldið áfram að Jemtland í dag í Brumunddal og nágrenni. 

Á föstudag beindist leitin fyrst og fremst að þeim stað sem blóðið fannst á fimmtudag. Í dag verður því leitað á stærra svæði. 

Saksóknari lögreglunnar vill ekki tjá sig um blóðið sem fannst og magn þess en segir að um meira en nokkra blóðdropa hafi verið að ræða. Hann segir enga blóðslóð liggja að þeim stað sem blóðið fannst í gær. 

Eftir að blóð fannst á fimmtudag er málið nú rannsakað sem sakamál. Ein kenning lögreglunnar er sú að ekið hafi verið á Jemtland.

Var í veislu fyrr um kvöldið

Janne Jemtland hvarf frá heimili sínu í Veldra í bænum Brumunddal aðfaranótt 29. desember. Kvöldið áður hafði hún verið í jólaboði og virst hinn kátasta að sögn bróður hennar sem hún sendi Snapchat-skilaboð úr gleðskapnum. Jemtland yfirgaf jólaboðið í leigubíl ásamt eiginmanni sínum um klukkan 2 um nóttina. Ekki er með vitað með vissu hvenær hún hvarf svo frá heimili sínu.

Lögreglan segir að merki hafi borist frá farsíma hennar rétt fyrir klukkan 6 um morguninn við Fagerlundsvegen sem er miðja vegu frá heimili hennar og miðbæ Brumunddal. Á þeim slóðum fannst blóð í vegkanti á fimmtudag og þegar á föstudag var það staðfest að það var úr Jemtland. 

mbl.is