Andrew prins hættir að sinna opinberum störfum

Andrew Bretaprins hefur beðið móður sína Elísabetu drottningu um að …
Andrew Bretaprins hefur beðið móður sína Elísabetu drottningu um að fá að hætta opinberum skyldustörfum um fyrirsjáanlega framtíð. AFP

Andrew Bretaprins, hertoginn af York, ætlar að draga sig í hlé frá öllum opinberum skyldustörfum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar um „fyrirsjáanlega framtíð“ vegna tengsla sinna við barnaníðinginn Jeffrey Epstein.

Í yfirlýsingu sem prinsinn sendi frá sér síðdegis kemur fram að tengsl hans við Epstein hafi haft mjög truflandi áhrif á konungsfjölskylduna, en Andrew mætti í viðtal um þau tengsl hjá BBC um helgina og hefur frammistaða hans þar sætt mikilli gagnrýni.

Andrew neitaði því í viðtalinu að hafa haft kynmök við unglingsstúlku á árum áður, en konan hefur sjálf sagt að Epstein hafi fyrirskipað henni að hafa mök við prinsinn er hún var 17 ára gömul. Hann sagðist raunar ekki muna eftir því að hafa nokkurn tíma hitt konuna, en þó er til mynd af þeim tveimur saman á heimili Ghislaine Maxwell, sem var vinkona Epstein.

Andrew segir að hann sjái eftir „vanhugsuðu sambandi“ sínu við Jeffrey Epstein og segir að sjálfsmorð hans hafi skilið eftir margar spurningar, sérstaklega fyrir fórnarlömb níðingsverka hans. Hann segist hafa mikla samúð með öllum sem hafi orðið fyrir áhrifum af gjörðum Epstein.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert