Dauðadómi breytt í 7 ára fangelsi

Þessi mynd var tekin af Sheikh Omar árið 2002.
Þessi mynd var tekin af Sheikh Omar árið 2002. AFP

Dauðarefsingu yfir breskum hryðjuverkamanni, Ahmed Omar Saeed Sheikh, var í dag breytt í sjö ára fangelsi í Pakistan í dag en Omar Sheikh var dæmdur fyrir morðið á bandaríska blaðamanninum Daniel Pearl árið 2002. Þar sem hann hefur setið í fangelsi síðan árið 2002 er gert ráð fyrir að hann verði látinn laus fljótlega að sögn verjanda Omar Sheikh, Khawja Naveed.

Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar hefur ekki tekist að fá saksóknara til að tjá sig um niðurstöðuna en í pakistönskum fjölmiðlum kemur fram að tveir dómarar við hæstarétt Sindh hafi kveðið upp dóminn.

Að sögn Naveed og fjölmiðla í Pakistan hafa einnig dómar yfir þremur öðrum verið mildaðir. Þeir voru dæmdir fyrir að hafa aðstoðað Omar og dæmdir í lífstíðarfangelsi. Ekki er vitað hvenær þeir verða látnir lausir.

Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl.
Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl. mbl.is

Pearl, sem var 38 ára gamall þegar hann lést, var yfirmaður fréttastofu Wall Street Journal í Suður-Asíu þegar honum var rænt í janúar 2002 í borginni Karachi. Þar vann hann að grein um íslamska vígamenn. Hrottalegt myndskeið sem sýndi aftöku Pearl var sent til ræðismanns Bandaríkjanna í borginni mánuði síðar. Omar Sheikh var handtekinn 2002 og dæmdur til dauða af hryðjuverkadómstól. 

Í janúar 2011 var birt skýrsla sem unnin var við Georgetown-háskólann þar sem fram kom að jafnvel hafi þeir sem voru dæmdir fyrir morðið á Pearl ekki verið þeir sem myrtu hann.

Árið 2014 var Qari Hashim, sem var handtekinn í tengslum við málið árið 2005, sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum.

Vinur Pearl og fyrrverandi starfsbróðir hans hjá Wall Street Journal, Asra Noman, leiddi rannsóknina á morðinu en hann er prófessor við Georgetown-háskólann. Niðurstaða hans var að Khalid Sheikh Mohammed, höfuðpaurinn á bak við hryðjuverkin 11. september 2001, hafi myrt Pearl ekki Omar Sheikh.

Mohammed, sem oftast gengur undir heitinu KSM, var handtekinn í Pakistan 2003 og er fangi í Gvantanamó-fangabúðunum á Kúbu. Bandarískur sálfræðingur sem tók viðtal við KSM segir að fanginn hafi sagt honum að hann hafi afhöfðað Pearl. 

Sheikh Omar, sem fæddist í Bretlandi, var dæmdur til dauða fyrir ránið og morðið á bandaríska blaðamanninum Daniel Pearl 15. júlí 2002. Þrír samverkamenn Omars hlutu lífstíðarfangelsi. Í dómsúrskurðinum sagði að Omar, sem heitir fullu nafni Ahmed Omar Saeed Sheikh, skyldi hengdur.

Dómari við pakistanskan hryðjuverkadómstól, Ashraf Ali Shah, tilkynnti um úrskurðinn á örstuttum fréttamannafundi í fangelsi sem var vandlega gætt af vopnuðum vörðum í Hyderabad, sem er um 160 km norðaustur af Karachi, þaðan sem Pearl hvarf 23. janúar sl. 

Omar hótaði hefndum gegn pakistönsku ríkisstjórninni þegar dómurinn var kveðinn upp, að því er segir í frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma. „Við skulum sjá til hvort okkar deyr fyrst," sagði í yfirlýsingu Omars, „ég eða stjórnin sem hefur ákveðið að ég skuli dæmdur til dauða.“

Omar sagði enn fremur: „Stríðið á milli islams og kafíranna [þeirra sem ekki eru múslimar] stendur yfir og það ættu allir að sýna hvort þeir fylgja íslam að málum eða kafírum.“ Verjendur sakborninganna sökuðu dómstólinn um að láta undan þrýstingi pakistanskra stjórnvalda til að hafa Bandaríkjamenn góða og var Pervez Musharraf þáverandi Pakistansforseti gagnrýndur sérstaklega.

„Musharraf forseti hafði þegar tilkynnt að hann vænti þess að Omar hlyti dauðarefsingu,“ sagði Rai Bashir, sem var verjandi, við fréttamenn. „Í ljósi slíkrar yfirlýsingar, var við því að búast að réttlætið næði fram að ganga?" Bróðir eins samverkamanna Omars sagði: „Þetta var ekki ákvörðun dómarans, þetta var ákvörðun Pervez Musharrafs og meistara hans í Ameríku.“

Bandaríkjamenn höfðu krafist þess að Omar yrði framseldur skömmu eftir að hann var handtekinn í febrúar, bæði fyrir morðið á Pearl og fyrir að ræna bandarískum ferðamanni á Indlandi 1994. Þrátt fyrir þrýsting frá bandarískum stjórnvöldum neitaði pakistanska stjórnin að framselja Omar áður en réttað yrði í máli hans í Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert