Mohammed tók Pearl af lífi

Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl.
Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl. mbl.is

Að sögn bandarísku alríkislögreglunnar (CIA) á Khalid Sheikh Mohammed, höfuðpaur hryðjuverkaárásanna þann 11. september 2001, að hafa sagt rétt frá þegar hann játaði á sig morðið á Daniel Pearl, blaðamanni Wall Street Journal

Mohammed játaði á sig morðið eftir að hafa verið tekinn höndum í Pakistan árið 2003. Bandaríkjamenn tóku játningunni þó með fyrirvara því  talið er að hann hafi verið beittur vatnspyntingum við yfirheyrslur, en það er þegar fanginn er látinn liggja á bakinu, klút er haldið fyrir vitum og vatni hellt á klútinn þannig að fanganum finnst hann vera að drukkna.

Samkvæmt fréttum CNN nýtti alríkislögreglan og leyniþjónusta Bandaríkjanna (FBI) stillimyndir úr upptökum af aftöku Pearl, sem var hálshöggvinn, en þar sjást einungis hendur mannsins sem tók hann af lífi. Myndirnar voru síðan bornar saman við hendur Mohammed og æðarnar notaðar til þess að skera úr um hvort játningin hans væri sönn, sem svo reyndist vera. 

Leyniþjónustan hefur ekki viljað staðfesta að þeir hafi notað þessa tækni til þess að komast að hinu sanna og hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að tæknin sé ekki notuð „sem stendur“.

Pearl hvarf í Karachi í Pakistan þann 23. janúar árið 2002 en hann var að vinna að efnisöflun vegna greinar um herskáa múslíma. Hann var myrtur eftir að yfirvöld í Bandaríkjunum neituðu að fara að kröfum mannræningjanna um að láta lausa fanga sem þeir höfðu handtekið í Afganistan og var aftaka hans tekin upp á myndband

Árið 2007 kom út mynd sem byggð var á sögu blaðamannsins eftir konu hans, Mariane. Myndin nefnist The Mighty Heart og var það leikkonan Angelina Jolie sem fór með aðalhlutverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert