14 ára fangelsi fyrir manndráp

Ástralska lögreglan. Mynd úr safni.
Ástralska lögreglan. Mynd úr safni. AFP

Ungur karlmaður hefur verið dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að hafa stungið tveggja barna móður til bana á jóladegi árið 2022 í Brisbane, Ástralíu. Vakti málið mikinn óhug og er eitt af nokkrum málum sem leiddi til þess að lög er varða unglingaglæpi voru hert í Queensland-fylki í Ástralíu. 

Forsaga málsins er sú að konan, Emma Lovell, og eiginmaður hennar, Lee, vöknuðu við hunda sína um miðja nótt og rákust þá á tvo innbrotsþjófa við nánari athugun. Eftir að hafa náð að hrekja mennina úr húsinu brutust út slagsmál í garði hjónanna þar sem konan hlaut hnífstungu í hjartað. Sjúkraflutningamenn framkvæmdu opna hjartaskurðaraðgerð á konunni í garði hjónanna en lést hún svo af sárum sínum skömmu eftir komu á spítala.

Kröfðust lífstíðardóms

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu krafðist fjölskylda Emmu að maðurinn hlyti lífstíðardóm, en áströlsk lög gera ráð fyrir lífstíðardómi ef um manndráp er að ræða. Var hins vegar réttað yfir manninum sem barni vegna aldurs hans þegar verknaðurinn var framinn, en var hann þá aðeins 17 ára gamall. Hlaut hann því 14 ára fangelsi og mun geta sótt um reynslulausn eftir tæp tíu ár.

„Mér líður ekki eins og réttlætinu hafi verið fullnægt,“ var haft eftir eiginmanni Emmu eftir réttarhöldin og bætti hann við:

„Það var gott að fá 14 ár en það verður aldrei nóg... það er ekki að fara að færa okkur Emmu til baka.“

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins að maðurinn, sem játaði verknaðinn fyrr á þessu ári hafi komið úr erfiðum og ofbeldisfullum aðstæðum og hafi verið búinn að misnota vímuefni síðan hann var 14 ára. Málsmeðferð mun hefjast yfir hinum einstaklingnum seinna í mánuðinum, en var hann einnig 17 ára þegar verknaðurinn átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert