Dularfull hola á gröf ráðherra

Þýskir embættismenn votta Schäuble virðingu sína við útförina 5. janúar.
Þýskir embættismenn votta Schäuble virðingu sína við útförina 5. janúar. AFP/Philipp von Ditfurth

Þýska lögreglan hefur hafið rannsókn á tilurð djúprar holu sem uppgötvaðist í dag við gröf Wolfangs Schäubles, fyrrverandi fjármálaráðherra landsins sem lést í fyrra.

Var Schäuble lagður til hinstu hvílu í heimabæ sínum Offenburg í Suðvestur-Þýskalandi í janúar og reyndist holan, sem þar fannst í dag, vera 1,2 metrar að dýpt og sporöskjulöguð, eftir því sem staðarlögreglan greinir frá, en hún segir enn fremur að grafarinn sem þarna var að verki hafi ekki náð niður að kistu ráðherrans látna.

„Andstyggilegur glæpur“

Holan hefur vakið úlfaþyt og lét Nancy Faeser innanríkisráðherra þau orð falla í viðtali við þýska dagblaðið Bild í dag að þarna hefði verið framinn „andstyggilegur glæpur sem refsa bæri fyrir til fulls“. Bärbel Bas, forseti þýska þingsins, kvaðst með böggum hildar vegna vanhelgunar grafar fyrirrennara síns, en Schäuble gegndi meðal annars stöðu þingforseta á áratugalöngum ferli sínum í þýskum stjórnmálum.

Þá fordæmdi Carsten Linnemann, framkvæmdastjóri Kristilegra demókrata, CDU, flokks Schäubles, holugröftinn og kvaðst hafa verið illa brugðið. „Er það von mín að hinir brotlegu verði handteknir hið fyrsta,“ sagði framkvæmdastjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert