Grafnir lifandi í 11 daga

Ástralska þjóðin fylgist grannt með björgunaraðgerðunum.
Ástralska þjóðin fylgist grannt með björgunaraðgerðunum. Reuters

Tveir ástralskir gullgrafarar hafa verið fastir í gullnámu í 11 daga eftir að náman hrundi í jarðskjálfta. Nú eiga björgunarmenn einungis eftir nokkra metra ófarna. Hingað til hafa verið notaðar stórtækar vinnuvélar en nú þarf að grafa síðustu 3 metrana með handafli.

Gullnáman er í Beaconsfield á Tasmaníu við syðsta odda Ástralíu og hafa Brent Webb og Todd Russel sem eru á fertugsaldri verið lokaði inni í þröngu öryggisbúri sem er á kílómetersdýpi síðan 25. apríl þegar þeir lentu í jarðskjálftanum.

Trúlegt þykir að ekki verði unnt að ná mönnunum út fyrr en á morgun.

Mennirnir hafa fengið birgðir í gegnum rör sem tókst að koma til þeirra en fyrstu fimm dagana lifðu þeir á bergvatni og einu súkkulaðistykki. Hitamyndavél kom björgunarmönnum á sporið.

Jarðskjálftinn var upp á 2,1 á Richterskalanum og lést félagi þeirra í hruninu, lík hans fannst eftir tveggja daga leit.

Þeir Webb og Russel hafa vakið aðdáun fyrir að hafa ekki misst kímnigáfuna við erfiðar aðstæður og er reiknað með að fjölmiðlar og bókaútgefendur muni slást um að skrifa undir samninga við þá er þeir losna.

Hægt hefur verið að koma til þeirra tónahlöðum, loftdýnum, samlokum og frostpinnum og fleira góðgæti. Webb bað um að fá tónlist með Foo Fighters rokkhljómsveitinni á tónahlöðuna sína og það frétti söngvari hljómsveitarinnar, Dave Grohl og sendi hann þeim hughreystandi skilaboð og sagðist bjóða þeim upp á bjór þegar þeir losnuðu út.

Vonast menn til að geta bjargað námuverkamönnunum á morgun.
Vonast menn til að geta bjargað námuverkamönnunum á morgun. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert