Vilja ná samkomulagi með friðsamlegum hætti

Íbúar í Seúl í Suður-Kóreu mótmæla kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.
Íbúar í Seúl í Suður-Kóreu mótmæla kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Kim Dae-Jung, forseti Suður-Kóreu, eru sammála um að leysa þurfi deiluna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu með friðsamlegum hætti. Forsetarnir eru sagðir hafa rætt saman í síma í gær. Þeir telja að Norður-Kóreu beri að draga til baka ákvörðun um að endurvekja kjarnorkuáætlun landsins.

Þeir sögðust ætla að halda áfram tilraunum til þess að leita að friðsamlegri lausn á þeirri deilu sem upp hefur komið milli Suður-Kóreu og Bandaríkjanna annars vegar og Norður-Kóreu hins vegar. Forseti Suður-Kóreu telur að Bandaríkjamenn, Suður-Kórea og Japan þurfi að koma að lausn deilunnar, sem er sögð á viðkvæmu stigi.

Bush kveðst vona að stjórnvöld í Norður-Kóreu geri sér grein fyrir því að Bandaríkjamenn hafi ekki í hyggju að gera innrás í landið. Bandaríkin og Norður-Kórea gerðu samkomulag árið 1994 um að Norður-Kórea hætti þróun á kjarnavopnum. Nú segja Bandaríkjamenn að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi brotið samkomulagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert