Saddam vildi semja þegar hann var handtekinn

Japanskir vegfarendur fylgjast með fréttaútsendingu þar sem fjallað er um …
Japanskir vegfarendur fylgjast með fréttaútsendingu þar sem fjallað er um handtöku Saddams Husseins. AP

Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, reyndi að semja við bandarísku hermennina sem handsömuðu hann í jarðhýsi í Ad Dawr, úthverfi borgarinnar Tikrit í Norður-Írak. „Ég er Saddam Hussein, ég er forseti Íraks og ég vil semja," hafði Brian Reed, majór, eftir Saddam en Reed stjórnaði aðgerðum þegar Saddam fannst.

„Svarið var að Bush forseti sendi honum kveðjur sínar," sagði Reed en hann sagði að bandarískur hermaður hefði skýrt frá þessum orðaskiptum sem áttu sér stað niðri í jarðhýsinu.

James Hickey, höfuðsmaður, sagði að þegar hermennirnir hefðu kíkt niður í jarðhýsið hefðu þeir séð mann þar niðri. „Tvær hendur birtust. Einstaklingurinn vildi greinilega gefast upp."

Hickey sagði að hermennirnir hefðu orðið undrandi á aðstæðunum sem Saddam bjó við en hann hafðist við niðri í holu, sem grafin var í jörðina á um 2,5 metra dýpi. Þá sagði höfuðsmaðurinn að hermennirnir hefðu búist við að lenda í skotbardaga. „Við vorum viðbúnir bardaga... og því að beita hernaðaryfirburðum," sagði hann.

Hickey sagði að aðgerðin hefði haft það markmið að handsama eða drepa Saddam Hussein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert