Hjólabrettagarður í Hafnarfirði

Nýi hjólabrettarampurinn við Víðistaðaskóla.
Nýi hjólabrettarampurinn við Víðistaðaskóla. Hafnarfjörður.is

Hjólabrettarampur var settur upp við Víðistaðaskóla í gær. Ætlunin er að byggja rúmlega 800m2 hjólabrettagarð í Hafnarfirði og er fyrsti sérhannaði hjólabrettagarðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Slíkur garður hefur hins vegar verið starfræktur á Akureyri í þrjú ár. Erlendir aðilar munu hanna garðinn og hafa umsjón með framkvæmdum. 

Fjölmargir brettaiðkendur mættu þegar á svæðið  til að prófa rampana sem eru staðsettir fyrir framan félagsmiðstöðina Hraunið. Skólastjórnendur Víðistaðaskóla hafa tekið nýja svæðinu fagnandi. Þetta kemur fram á vef Hafnarfjarðar.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar, segir á vefnum að nýju ramparnir við Víðistaðaskóla séu eitt skref í átt að bættri aðstöðu fyrir brettakrakka í Hafnarfirði en framundan sé vinna við nýjan og glæsilegan hjólabrettagarð  

„Hjólabrettasvæðið verður hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, því hvergi á landinu er hægt að finna sérhannað svæði sem þetta, upphitað og steypt. Gert verður ráð fyrir svokallaðri „skál” á svæðinu auk um 800 fermetra af sérhönnuðu svæði með þarfir hjólabrettaiðkenda að leiðarljósi,“ segir Margrét Gauja. 

Línuskautaiðkendur og hjólreiðafólk munu einnig geta nýtt sér aðstöðuna.

 „Þetta verður sannkallað útivistarsvæði, sem ungir og aldnir geta nýtt sér, hvort sem það er til íþróttaiðkunar eða áhorfs,“ segir Margrét Gauja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert