Tekist á um ESB-tillögu

Fulltrúar ASÍ og SA settust á fund með ráðherrum í …
Fulltrúar ASÍ og SA settust á fund með ráðherrum í Ráðherrabústaðnum nú síðdegis. mbl.is/Brynjar Gauti

Minnisblað var lagt fram á fundi aðila vinnumarkaðarins á föstudagskvöld, af hálfu ASÍ, með tillögu um sameiginlega afstöðu í efnahagsaðgerðum helgarinnar.

„Mikilvægasta verkefni á sviði efnahagsmála er að tryggja hér stöðugleika til lengri tíma. Aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um að slíkum stöðugleika verði ekki náð með krónu sem gjaldmiðli,“ sagði í minnisblaðinu. „Því ber að stefna að inngöngu í ESB og upptöku evru, svo fljótt sem auðið er. Á þeim grundvelli þarf þróun efnahags- og kjaramála á næstunni að miðast við það að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin,“ stóð þar einnig.

Inntur eftir viðbrögðum við þessu í dag lét Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ekkert uppi. Heimildir herma að fulltrúum SA hafi þótt orðalagið of eindregið. Viðmælendur Morgunblaðsins úr röðum atvinnurekenda benda á að ríkisstjórnin hafi lagt fram fjárlagafrumvarp og kynnt fjárlagaáætlun til ársins 2012, þar sé gert ráð fyrir töluverðum halla til að mæta samdrætti og atvinnuleysi. Ef mæta eigi þessu skilyrði ASÍ þurfi að stórauka niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu.

Hefur ekkert vægi
Sjálfstæðismenn sem leitað var viðbragða hjá í gærmorgun vegna þessa töldu slíka yfirlýsingu lítið hafa að segja á þessum tímapunkti, enginn þeirra hafnaði því þó alfarið að slíkar kröfur gætu komið upp.

„Ef menn telja þetta nauðsynlegt innlegg og fara að gera þetta að aðalatriði í málinu þá sé ég ekki að sjálfstæðismenn láti brjóta á því,“ sagði þingmaður.

Annar tók í sama streng. „Það er verið að róa algjöran lífróður í þessu máli,“ sagði hann.

„Slíkt gerir maður ekki í óðagoti. Núna er hreinlega óðagot,“ sagði Pétur H. Blöndal um þetta.

„Menn eru að leysa mjög mikið skammtímavandamál, sem öll þjóðin stendur frammi fyrir, og hafa í raun mjög góða langtímastöðu. Mér þætti það þess vegna mjög miður ef menn færu að nota sér svona stöðu til að koma sínum pólitísku áhugamálum í gegn. Þá eru þeir ekki að vinna sameiginlega að lausn mála. Ég held að þetta hefði ekki mikið vægi því víða í Evrópu eru mikil vandamál. Ég minni á að í Hollandi er líka evra og á Írlandi, Spáni og Ítalíu. Ég sé ekki evran hafi leyst neinn vanda þar. Ef menn ætla að gera þetta að einhverri ýtrustu kröfu tel ég að menn eigi ekki að láta brjóta á því. Ástandið er alltof alvarlegt til þess.“
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert