Viðskiptaráð: Yfir 90% vildu breytingar

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. …
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. Þeir eru báðir að hætta störfum. mbl.is/Golli

Fleiri en 9 af hverjum 10 þátttakendum í viðhorfskönnun Viðskiptaráðs Íslands töldu nauðsynlegt að stokka upp í ríkisstjórninni eða gera mannabreytingar hjá Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Þrátt fyrir nánast einróma vilja til breytinga hjá ríkisstjórn taldi ríflega helmingur þátttakenda að ekki ætti að boða til kosninga á árinu 2009.

„Með þeim breytingum sem síðustu daga hafa orðið á ríkisstjórn og í lykilstofnunum er verið að koma til móts við almenna kröfu um breytingar. Mögulegt er að mikill órói í samfélaginu og ofangreindar breytingar á stjórnarsamstarfi kunni að hafa breytt afstöðu aðildarfélaga til kosninga á árinu frá því sem var er könnuninni var lokað 20. janúar síðastliðinn," að því er segir í fréttapósti VÍ.

Flestir vilja evru

Horft til skemmri tíma töldu þátttakendur mikilvægast að bæta aðgengi að fjármagni, aðallega í formi vaxtalækkana og með því að hið opinbera örvi atvinnulíf með auknu framkvæmdum. Einnig er talið aðkallandi að fram komi raunverulegur stuðningur við lífvænleg fyrirtæki.

Til lengri tíma lögðu þátttakendur áherslu á að það þurfi að taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. Flestir vilja taka upp evru, sumir strax en aðrir í kjölfar aðildar að ESB. Einstaka þátttakandi nefnir aðra kosti, eins og til dæmis bandaríkjadollar.

Tveir þriðju fylgjandi aðild að ESB

Meirihluti aðildarfélaga í Viðskiptaráði er hlynntur því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Stuðningur við ESB hefur því aukist umtalsvert hjá félögum ráðsins, en samkvæmt könnun frá því í janúar 2008 var þriðjungur aðildarfélaga hlynntur aðildarumsókn á kjörtímabilinu. Um tveir þriðju þátttakenda í könnuninni nú eru þeirrar skoðunar að ESB umsókn hefði jákvæð áhrif á núverandi stöðu efnahags! mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert