Skynsamlegt að draga úr sérhæfðri þjónustu á landsbyggðinni

mbl.is/Ómar

Læknaráð Landspítalans lýsir áhyggjum af því hvaða áhrif áframhaldandi niðurskurður getur haft á starfsemi Landspítalans og íslenska heilbrigðiskerfið. Um leið telur ráðið það skynsamlegt að yfirvöld hafi markað þá stefnu að draga úr sérhæfðri sjúkrahúsaþjónustu á landsbyggðinni en efla í stað þess heilsugæslu og aðra grunnþjónustu.

Þetta kemur fram í ályktun frá læknaráðinu sem er eftirfarandi:

„Með fjárlagafumvarpi fyrir árið 2011 hafa heilbrigðisyfirvöld markað þá framtíðarstefnu að draga úr sérhæfðri sjúkrahúsaþjónustu á landsbyggðinni en efla í stað þess heilsugæslu og aðra grunnþjónustu. Sérhæfð sjúkrahúsaþjónusta verður framvegis einkum veitt á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Læknaráð Landspítala telur þetta skynsamlega stefnu, enda í megindráttum í samræmi við þá framþróun sem orðið hefur í læknisfræði undanfarna áratugi. Sérhæfðari og flóknari rannsóknir og aðgerðir er hagkvæmast og öruggast að veita á fáum stöðum. Þegar stefna er mörkuð til framtíðar í viðkvæmum málaflokkum, eins og heilbrigðismál eru, verður mikilvægt að hafa náið samráð við fagaðila. Einnig er nauðsynlegt að nægur tími gefist svo takast megi að innleiða breytingar á farsælan hátt.

Undanfarin 3 ár hafa fjárveitingar til Landspítalans dregist saman um 6,5 milljarða eða um 20% að raungildi. Meira en 600 starfsmenn hafa hætt störfum og álag hefur aukist, en ýmsar starfsemisbreytingar hafa þó skilað árangri. Læknaráð lýsir áhyggjum af því hvaða áhrif áframhaldandi niðurskurður getur haft á starfsemi Landspítalans og íslenska heilbrigðiskerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert