Meiri niðurskurðarkrafa en eftir hrun

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki markmið mitt eða annarra á Landspítala að draga upp dekkri mynd en ástæða er til,“ skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í pistli á heimasíðu spítalans. „Það er hins vegar hlutverk okkar og skylda að gera stjórnvöldum og almenningi raunsanna grein fyrir afleiðingum þess fjárlagafrumvarps sem lagt hefur verið fram.“

Páll fjallar um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 en eins og áður hefur komið fram segir hann það gífurleg vonbrigði og í raun algjörar hamfarir.

Frétt mbl.is: Líkir fjárlagafrumvarpinu við hamfarir

„Í aðdraganda síðustu kosninga voru allir flokkar sammála um mikilvægi þess að styrkja heilbrigðiskerfið og efla Landspítala. Fyrirheit voru gefin um stóraukna áherslu í þá veru. Fjárþörf Landspítala til næstu ára er fráfarandi stjórnvöldum vel kunn enda var hún meðal annars kynnt þeim á fundi 19. febrúar síðastliðinn, þegar fjárlagafrumvarpið var í vinnslu. Lágmarksfjárþörf Landspítala var þá metin 5,5 milljarðar og miðaði sú fjárhæð við að viðhalda óbreyttri stöðu spítalans,“ skrifar Páll og bætir við að almenningur hafi sent stjórnvöldum skýr skilaboð í undirskriftasöfnun til stuðnings heilbrigðiskerfinu um að uppbyggingar væri þörf.  

Verður ekki átakalaust verkefni

Hann bendir á að fyrirhugað fjárlagafrumvarp kalli að óbreyttu á niðurskurð á Landspítala að lágmarki 5,3 milljörðum á næsta ári. „Þetta er nánast sama tala og kynnt var fráfarandi stjórnvöldum í febrúar sem lágmarksfjárþörf (5,5 milljarðar). Frumvarpið boðar niðurskurð af stærðargráðu sem nemur hartnær 10% af heildarumsvifum. Slíkt verkefni verður ekki átakalaust.“

Til að setja þetta í samhengi segir Páll rétt að líta til ársins 2010 en þá var mesti niðurskurður í manna minnum á Landspítala eða sem nam um 9% (3,3 milljarðar á þeim tíma). Þá var farið í ýmsar erfiðar en óumflýjanlegar aðgerðir sem skildu eftir ör á þjónustu sjúkrahússins og starfsfólki þess sem enn sjást merki um.

Krafan um niðurskurð er ívið meiri en þegar verst lét í kreppunni – en samt mun efnahagur þjóðarinnar sjaldan eða aldrei hafa verið betri samkvæmt málflutningi fráfarandi ráðamanna.“

Bætt heilbrigðisþjónusta á oddinum hjá öllum flokkum

Páll segir það staðreyndi að Ísland vermi botnsæti Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) hvað varðar fjárfestingar í innviðum heilbrigðiskerfisins. Einnig sé Ísland lægst Norðurlanda í fjárframlögum til heilbrigðismála sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu:

Þessi alvarlega staða hvatti menn til dáða í aðdraganda kosninga og fyrirheit voru um miklar umbætur. Allir flokkar höfðu bætta stöðu heilbrigðisþjónustu í landinu á oddinum,“ skrifar Páll og segir að það sé með ólíkindum að rætt sé af léttúð um það verkefni sem sjúkrahúsið standi nú frammi fyrir.

Stjórnvöld munu útskýra hvaða heilbrigðisþjónstu landsmenn geta verið án

Að lokum stappar Páll stálinu í starfsfólk spítalans og hvetur það til að sinna störfum sínum áfram af elju og fagmennsku. Ef marka megi orð stjórnmálamanna fyrir kosningar þá verði þessu frumvarpi breytt mikið og leið fundin til að forgangsraða í þágu heilbrigðismála í landinu. 

„Verði frumvarpið hins vegar að veruleika með takmörkuðum umbótum þá mun Landspítali að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til nálgast verkefnið af yfirvegun. Það munum við gera í samvinnu við stjórnvöld, samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál, og stjórnvöld munu þá þurfa að leggja línurnar og útskýra hvaða heilbrigðisþjónustu þau telja landsmenn helst geta verið án,“ skrifar Páll.

Pistil Páls má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert