20 dráttarbílar jafnast á við þúsund fólksbíla

Skrifað undir tímamótasamninga um losunarfría þungaflutninga á Íslandi á Hellisheiðarvirkjun …
Skrifað undir tímamótasamninga um losunarfría þungaflutninga á Íslandi á Hellisheiðarvirkjun í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tímamótasamningur var undirritaður í Hellisheiðarvirkjun í dag um losunarfría þungaflutninga á Íslandi.

Fimm íslensk fyrirtæki hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX vöruflutningabílum.

Trukkar af stærstu gerð ganga fyrir vetni

Faratækin sem um ræðir eru dráttarbílar af stærstu gerð eða 44 og 49 tonn. Orka náttúrunnar (ON) mun framleiða vetni á Hellisheiði til þess að knýja bílana og mun Blær – Íslenska vetnisfélagið dreifa því.

Vetnisknúinn MAN hTGX vöruflutningabíll
Vetnisknúinn MAN hTGX vöruflutningabíll Ljósmynd/Aðsend

Í verkefninu eru því saman komin framleiðandi og innflytjandi bílanna, væntanlegir viðskiptavinir og fyrirtækin sem bæði framleiða og dreifa orkugjafanum.

 „Hér er um að ræða eitt stærsta einstaka orkuskiptaverkefnið í sögu þjóðarinnar. Eldsneytisnotkun 20 dráttarbíla jafnast á við ríflega þúsund fólksbíla og áætla má árlegan sparnað af bruna 700 þúsund lítra af dísilolíu. Með innflutningi bílanna og kaupum á þeim er stórt skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á Íslandi. Næstu skref eru að tryggja bæði framboð og samkeppnishæft verð á vetni til nota í samgöngum þannig að full orkuskipti geti átt sér stað,“ segir Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Nýorku í tilkynningu.

Vélin í MAN hTGX vöruflutningabíl er sprengihreyfilsvél, knúin áfram af …
Vélin í MAN hTGX vöruflutningabíl er sprengihreyfilsvél, knúin áfram af vetni. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Nýorka var stofnað árið 1999 í tengslum við viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um að stefna að nýtingu endurnýjanlegra orkubera til samgangna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Arnþór

Vetni hentar betur í þungaflutninga

Blaðamaður mbl.is ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að undirritun lokinni. Hann var beðinn um að meta viðburð dagsins.

„Þetta er mikill gleðidagur og þótt einhver myndi segja að 20 trukkar sé dropi í hafið, þá er málið í raun gríðarstórt, sé litið til þess hversu mikið það sparar í útblæstri. Og eins þegar 20 trukkar eru komnir í gang, þá geta fleiri komið.

Í fyrri orkuskiptum á Íslandi vorum við að leysa út rússneska olíu fyrir innlenda, græna orkugjafa. Það sama er upp á teningnum hér. Við erum að leysa út norska olíu í skiptum fyrir græna íslenska orku. Þótt við stöndum mjög framarlega í að rafvæða bílaflotann þá hefur það komið fram að vetni sem eldsneyti hentar betur í þungaflutninga og að drægni bílanna er meiri.“

Orkusjóði beitt til að flýta orkuskiptum

Ráðherra var þá spurður að því hvað stjórnvöld geta gert til að vetnisframleiðsla aukist. Ljóst er að núverandi geta Orku náttúrunnar (ON) geti sinnt 5-7 bílum, en samkvæmt viljayfirlýsingunni í dag séu 20 bílar á leið til landsins.

Vetnistrukkarnir geta dregið allt að 600 km á beinum og …
Vetnistrukkarnir geta dregið allt að 600 km á beinum og sléttum vegi. Ljósmynd/Aðsend

 „Stjórnvöld hafa gert ýmislegt, meðal annars styrkt þetta verkefni sérstaklega með orkusjóði. Hugsunin að baki sjóðnum er að ákveðin niðurgreiðsla sé veitt meðan að orkuskiptin fara fram.

Við þurfum græna orkuframleiðslu, við höfum gert lítið í því í 15 til 20 ár. Því hef ég lagt mikla áherslu í það að flýta því. Við þurfum græna orku í orkuskiptin, það hljómar augljóst, en virðist einhverra hluta ekki vera öllum jafn ljóst.“

Bílaleigurnar eftir í rafbílavæðingunni

Guðlaugur Þór var spurður um þá gagnrýni sem verið hefur með skort á innviðum fyrir rafbíla á landsbyggðinni, hvort með verkefni eins og það sem kynnt var í dag, sé Ísland mögulega með athyglina of dreifða í orkuskiptum.

„Nei, það held ég ekki. Ég held að fátt sé að fara að stöðva rafbílavæðinguna, og þá er ég líka að tala um á heimsvísu. Eitt útilokar ekki annað. Ég held að stóra stökkið sem eigi eftir að stíga sé að bílaleigur fari í rafbílavæðingu. Þegar það gerist munu öll hótel og gistihús landið um kring vera með hleðslustöðvar hjá sér, ekki endilega hraðhleðslu, heldur stöðvar þar sem hægt er að hlaða á nóttinni þegar sofið er.“

Ekki allt í orkuskiptum á borði ráðherra

Að síðustu var ráðherra spurður um þá hugmynd að lækka þungaskatt á vetnisbílum í skiptum fyrir að gjald á díselbíla væri hækkað?

„Því miður eru ekki allt það sem kemur að orkuskiptunum á mínu borði. Ég held að mestu máli að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki þegar fólk ætlar að tileinka sér nýja tækni og hvati til þess að fara í orkuskipti. Ég skil að hvata þarf til skamms tíma og því má skoða slíkar hugmyndir eins og aðrar. En ég vil líka taka það fram að við orkuskiptin þarf að sýna ákveðinn sveigjanleika, því tæknin er á fleygiferð, og því getur orðið svo að eftir eitt til tvö ár verður þetta viðtal mögulega orðið þokkalega úrelt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert