Fólk í kosningateymi Höllu fékk milljónir frá OS

Orkustofnun hefur greitt Langbrók 12.764.265 krónur.
Orkustofnun hefur greitt Langbrók 12.764.265 krónur. Samsett mynd

Fjármunir sem hlaupa á tugum milljónum króna hafa runnið frá Orkustofnun (OS) til fyrirtækja þar sem stjórnendur og eigendur eru með mikil tengsl við framboð Höllu Hrundar Logadóttur. 

Eru þetta verkkaup undir liðum eins og til dæmis „önnur sérfræðiþjónusta“ á síðustu 16 mánuðum. Sumir hafa bein tengsl við kosningabaráttu Höllu. Á þessum tíma var Halla að sinna starfi orkumálastjóra.

Samtals hefur OS á síðustu 16 mánuðum greitt 31.117.824 krónur til þriggja fyrirtækja þar sem eigendur og stjórnendur hafa ýmist verið beinir þátttakendur í kosningabaráttu Höllu eða verið upphafsmenn í Facebook-hópi til stuðnings Höllu.

Hægt er sjá þessar greiðslur á vef opinna reikninga ríkisins.

Fékk 7,6 milljónir frá OS

99 ehf. þáði 7,6 milljónir í greiðslur frá OS á síðustu 16 mánuðum samkvæmt opnum reikningum ríkisins.

Greiðslurnar eru ýmist merktar sem annar kostnaður eða myndbandagerð í bókhaldi OS.

Eigandi 99 ehf. er Óskar Örn Arnarson. Hann er í kosningateymi Höllu, samkvæmt svörum frá framboðinu við fyrirspurn mbl.is. 

Yfir 10 milljónir til fyrirtækis utan rammasamnings

Attentus-Mannauður og ráð ehf. þáði 10.740.208 krónur á sama tímabili frá OS. Helga Lára Haarde er starfsmaður Attentus til margra ára, er í kosningastjórn Höllu Hrundar og tengiliður framboðsins við landskjörstjórn.

Til viðbótar við Helgu Láru hafa þrír eigendur Attentus verið með í Facebook hópi Höllu frá upphafi. Það eru Drífa Sigurðardóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir. Helga er stjórnandi í stuðningsmannahópi Höllu Hrundar.

Þess má geta að Attentus ehf. er ekki aðili að rammasamningi ríkisins um innkaup á rekstrarráðgjöf, en í samningnum er sérstakur kafli um mannauðsmál og eiga tólf önnur fyrirtæki aðild að samningnum.

„Fyrir liggur samningur um þjónustu mannauðsstjóra til leigu milli OS og Attentus. Samningurinn er samþykktur í mars 2023 og er ótímabundinn með 3 mánaða uppsagnafresti. Að svo stöddu liggja ekki fyrir upplýsingar hvort kallað hafi verið eftir verðfyrirspurn í þjónustuna en hún var á þeim tíma sem samningurinn var gerður ekki hluti af rammasamningskerfi Ríkiskaupa og því var stofnuninni heimilt að ganga til samninga við Attentus. Rétt kann þó að vera að endurskoða slíka samninga nú þegar rammasamningur um ráðgjöf, þ.m.t. mannauðsráðgjöf, er í gildi,“ segir í svari frá Orkustofnun við fyrirspurn mbl.is. 

Tæplega 13 milljónir til Langbrókar

Eins og Morgunblaðið greindi frá síðustu helgi þá hefur Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri Orkustofnunar, farið í leyfi frá og með í síðustu viku, en hún hefur samhliða þeim störfum verið í innsta hring forsetaframboðs Höllu Hrundar.

Karen hefur starfað skv. samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda. Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. mars 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi.

Allt frá því að fyrrgreindur samningur var gerður hefur Orkustofnun greitt Langbrók 12.764.265 krónur, samkvæmt opnum reikningum ríkisins.

Mest allt „önnur sérfræðisþjónusta“

Langmest af fyrrnefndum greiðslum falla undir „aðra sérfræðiþjónustu“. Þegar tekið er saman allar greiðslur OS síðustu 16 mánuði vegna „annarrar sérfræðiþjónustu“ þá má sjá að OS hefur greitt alls 55.374.486 krónur til ýmissa stofnana og fyrirtækja undir þeim lið.

Ef tekin eru út fyrir sviga sérhæfð fyrirtæki og stofnanir, sem einbeita sér að orkumarkaði og orkurannsóknum, þá standa eftir ýmis ráðgjafafyrirtæki.

Þau fyrirtæki fengu greitt 32.861.839 krónur frá OS af fyrrnefndri 55 milljóna króna upphæð. Af þeim tæplega 33 milljónum króna runnu að minnsta kosti 24.673.965 krónur til fyrrnefndra þriggja fyrirtækja með tengsl við Höllu Hrund. Það eru rétt rúmlega 75%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert