Sérkennilegt hjá borginni

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er kominn tími til að velta við hverjum steini og fara ofan í saumana á þessu máli og komast að því af hverju borgin afsalar sér þessum miklu verðmætum,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um samninga sem borgin gerði við olíufélögin um uppbyggingarreiti.

Meirihluti borgarráðs samþykkti í gær tillögu sjálfstæðismanna um að innri endurskoðun kanni samningana. Kveðst Hildur fagna því enda hafi minnihlutinn áður lagt það til árið 2021, en tillögunni var vísað frá.

Reykjavíkurborg sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að rangfærslur hefðu verið í umfjöllun Kastljóss um samningana. Hildur segist afar ósammála mörgu í yfirlýsingunni. Til að mynda sé sérkennilegt að borgin segi íbúðafjölda oftalinn í umfjölluninni, enda hafi verið vísað til tilkynningar frá borginni sjálfri um samningana árið 2021, þar sem sagði að reisa ætti 700-800 íbúðir.

Hildur Björnsdóttir.
Hildur Björnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð um þá fullyrðingu borgarinnar að samningarnir hefðu ekki verið kynntir í sumarleyfi segir Hildur borgarstjórn vissulega hafa verið í leyfi og málið því ekki tekið fyrir á opnum fundi borgarstjórnar heldur á lokuðum fundi borgarráðs. Aðeins sjö eiga þar sæti en 23 skipa borgarstjórn.

Hildur víkur einnig að fullyrðingum borgarinnar um að þurft hafi að bæta olíufélögunum upp tap vegna lokana bensínstöðvanna: „Olíufélögunum var bætt þetta upp í mörgum tilvikum með því að fá að setja upp dælur á nýjum stöðum.“

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir ekkert því til fyrirstöðu að láta innri endurskoðun kanna aðdraganda samninganna og hvernig að þeim var staðið.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert