„Það er verið að slátra íslenskum heimilum“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, er vægast sagt harðorður í garð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem tilkynnti í morgun um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum inn­lán­um, verða því áfram 9,25% eins og þeir hafa verið frá því í ágúst á síðasta ári.

„Ég á ekki til eitt einasta orð með þessa ákvörðun og ég held að það sé full þörf á því að íslensk stjórnvöld taki það alvarlega til athugunar hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni,“ segir Vilhjálmur við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um ákvörðun peningastefnunefndarinnar.

Seðlabankinn ekki með í vegferðinni

Vilhjálmur segir að það sé með ólíkindum miðað við það sem íslenskt launafólk hafi lagt á sig til þess að láta hlutina raungerast í þá átt að að vextir lækki að þá líti allt út fyrir það að Seðlabanki Íslands ætli ekkert að taka þátt í þessari vegferð.

„Í gegnum árin og áratugina hefur Seðlabankinn staðið á öskrum gagnvart íslenskri verkalýðshreyfingu um mikilvægi þess að hér verði samið til langs tíma með hófstilltum hætti. Það hefur yfirleitt verið helsta atriðið í rökstuðningi þeirra fyrir hækkun vaxta eða þeir standi óbreyttir þegar það er óvissa í kjaramálum,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að árið 2022 hafi hagvöxtur á Íslandi verið 8,3 prósent sem hafi sýnt bullandi þenslu á vinnumarkaði. Hann segir að hagvöxturinn í fyrra hafa verið kominn niður í 4,1 prósent og nú spái helstu greiningaraðilar að hagvöxtur verði í kringum 0,5 prósent til 0,9 prósent á þessu ári.

Keyra hagkerfið í frost

„Seðlabankinn er ekki bara að keyra heimilin og fyrirtækin í stórkostleg vandræði heldur er hann að keyra hagkerfið í heild sinni í algjört frost.“

Vilhjálmur kveðst mjög hugsi yfir því að tveir af þeim fimm sem sitja í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands búi ekki á Íslandi og séu þar að leiðandi ekki í neinum takti við íslenskan raunveruleika.

„Við skulum átta okkur á einu að peningastefnunefnd getur með ákvörðunum sínum flutt milljarða, jafnvel tugi milljarða, á milli þeirra sem skulda og þeirra sem eiga fjármagnið,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að ábyrgð þessa fólks sé gríðarleg og í hans huga geti stjórnmálamenn ekki hagað sér eins og strútar, stungið hausnum ofan í sandinn og verið algjörlega ábyrgðarlausir yfir ákvörðunum peningastefnunefndar sem hafi gríðarleg völd í íslensku samfélagi.

Hingað og ekki lengra

„Ég er mjög hugsi hvort íslenska þjóðin eigi núna, miðað við allar þær forsendur sem eru fyrir lækkun vaxta, að rísa upp og segja hingað og ekki lengra. Sá tímapunktur er að koma. Þetta gengur ekki lengur.“

Vilhjálmur segir að yfir 300 milljarðar hjá íslenskum heimilum séu að losna úr föstum vöxtum yfir í breytilega vexti þar sem vaxtastigið fari úr rúmum 4 prósentum upp í allt að 11 prósent. 

„Það er verið að slátra íslenskum heimilum. Þessi ákvörðun um að vera með vextina upp í nær 10 prósent þar sem búið er að semja til fjögurra ára með hófstilltum hætti og hagvöxtur á hraðri niðurleið þá segi ég bara hingað og ekki lengra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert