Líklegt að fyrirkomulag varðandi samræmd próf breytist

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fagnaði á Alþingi í morgun þeirri yfirlýsingu, sem birtist í morgun frá forustumönnum Kennarasambands Íslands, um að stjórnir allra aðildarfélaga KÍ hefðu samþykkt samkomulag sem gert var við menntamálaráðherra í byrjun febrúar.

Sagði Þorgerður Katrín mestu máli skipti að menntamálaráðuneytið og kennaraforustan muni ganga samstíga að því verki sem fyrir lægi við endurskipulagningu skólakerfisins.

„Ég legg áherslu á að við munum halda áfram að vinna í samræmi við það samkomulag, sem var undirritað af mér og formanni Kennarasambandsins. Við munum verða samhent og samstíga í þeirri viðleitni okkar að gera skólakerfið enn betra en það er," sagði Þorgerður Katrín. Sagði hún að farið verði í allsherjar endurskoðun á allri skólalöggjöfinni í samvinnu við kennara. Þá sagði hún afar líklegt að núverandi fyrirkomulag varðandi samræmd próf muni breytast í ljósi breyttrar námsskipunar til stúdentsprófs.

Málið var rætt í upphafi þingfundar að frumkvæði Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Menntamálaráðherra sagði að frumvarp myndi koma fram á Alþingi um framhaldsskólastigið á vordögum. Margir þingmenn fögnuðu samkomulagi kennaraforustunnar og menntamálaráðherra og hvöttu til þess að það verði nýtt vel til að samræma sjónarmið um skólakerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert