Orri með stoðsendingu og FCK á toppinn

Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark í toppslag
Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark í toppslag Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn Óskarsson lagði upp fyrsta mark FC Kaupmannahafnar í stórleik dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag þegar FCK heimsótti Bröndby. FCK hirti toppsætið af erkifjendunum með 3:1 sigri.

FCK er í efsta sæti eftir leikinn, tveimur stigum á undan Bröndby. Sverrir Ingi Ingason og félagar hans í FC Midtjylland geta jafnað Kaupmannahafnarliðið að stigum með sigri á AGF en sá leikur er nýhafinn.

Heimamenn í Bröndby komust yfir með marki Nicolai Vallys en Kevin Diks jafnaði fyrir FCK eftir sendingu Orra. Staðan var jöfn, 1:1, í hálfleik en Mohamed Elyonussi kom gestunum yfir og Diks var aftur á ferðinni í uppbótartíma með mark úr vítaspyrnu. 

Orri Steinn spilaði 85 mínútur fyrir FCK en Rúnar Alex Rúnarsson er varamarkvörður liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert