Einar úrskurðaður í eins leiks bann

Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Jónsson, þjálfari Fram, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna atviks undir lok leiks Fram og Hauka í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta á dögunum.

Einar henti þá leikhlésspjaldi sínu í átt að eftirlitsborðinu en hann var allt annað en sáttur vegna þess að einn eftirlitsmannanna sagði Einar hafa tekið leikhlé, sem hann sagðist sjálfur aldrei hafa gert. Einar fékk rautt spjald fyrir framkomu sína en Haukar unnu leikinn og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaeinvíginu á meðan Fram er úr leik.

Einar hefur nú verið úrskurðaður í eins leiks bann en aganefnd HSÍ hefur það til skoðunar að lengja bannið frekar. Ljóst er að Einar mun ekki taka út leikbannið á þessu tímabili en bæði meistaraflokkslið Fram eru úr leik í Íslandsmótinu.

Úrskurð aganefndar má sjá hér að neðan:

„Einar Jónsson þjálfari Fram hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög ódrengilegrar hegðunar í leik Fram og Hauka í úrslitakeppni Olís deildar kvenna kvenna þann 01.05.2024. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Er það mat aganefndar, með vísan til skýrslu dómara, að brotið kunni að verðskulda lengra bann en 1 leik. Með tilvísun til 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að þjálfarinn er úrskurðaður strax í eins leiks bann en málinu að öðru leiti frestað um sólarhring til að gefa félaginu færi á að skila athugasemdum sínum til skrifstofu HSÍ fyrir kl.12.00, föstudaginn 03. maí með tilvísun í 3.gr ofangreindar reglugerðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert