Verðum að gleyma að við séum á Ásvöllum

Guðbjörg Sverrisdóttir sækir að körfu Hauka í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. …
Guðbjörg Sverrisdóttir sækir að körfu Hauka í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Hún var frábær í liði Vals í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Já, mér er mjög létt að það skyldi ekki einhver annar taka við bikarnum á heimavelli Vals,“ sagði Guðbjörg Sverrisdóttir eftir sigur Vals á Haukum í kvöld. Þar með jafnaði Valur úrslitaeinvígið í 2:2 og liðin mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á mánudag.

Valur hafði frumkvæðið nær allan leikinn en Haukar fengu hins vegar tækifæri til að jafna metin eða hreinlega „stela“ sigrinum í lokin.

„Mér fannst við staðna svolítið, eins og við værum að reyna að halda bilinu en ekki auka við það. Það er ekki hægt að gera það í svona leik, á þessu stigi. Maður má það bara ekki. Við komum okkur einhverjum 10 stigum yfir og í stað þess að bæta í þá var eins og við hugsuðum „ókey, höldum þessu.“ Það bara gengur ekki. En við unnum og erum á leið í oddaleik. Það er það sem við vildum,“ sagði Guðbjörg sem átti frábæran leik, klikkaði varla á skoti og gerði 19 stig auk þess að taka 8 fráköst. Hún vildi þó sem minnst gera úr sínum þætti en játti því að hún hefði leikið vel.

Oddaleikur einvígisins verður á Ásvöllum á mánudag en Haukar hafa haft gott tak á Val í Hafnarfirðinum:

„Það er eins og það sé einhver draugur þar. En þegar komið er á þetta stig þá verðum við bara að gleyma því að við séum að spila á Ásvöllum frekar en hér. Við verðum bara að mæta almennilega til leiks og þá erum við góðar,“ sagði Guðbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert