Suðurnesjaslagur um Íslandsmeistaratitilinn

Birna Valgerður Benonýsdóttir úr Keflavík með boltann í kvöld.
Birna Valgerður Benonýsdóttir úr Keflavík með boltann í kvöld. mbl.is/Skúli

Keflavík og Stjarnan mættust í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmót kvenna í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Keflavíkur 81:76.

Stjörnukonur mættu af fullum krafti í leikinn og skoruðu fyrstu fimm stig leiksins. Keflavíkurkonur svöruðu og komust yfir í stöðunni 10:8. Eftir það skiptust liðin á að ná forystu sem endaði á því að Stjörnukonur leiddu eftir fyrsta leikhlutann með þremur stigum. Staðan var 23:20 fyrir Stjörnuna.

Keflavíkurkonur jöfnuðu strax í öðrum leikhluta þegar Thelma Dís Ágústsdóttir setti niður þriggja stiga körfu. Keflavík komst síðan fjórum stigum yfir í stöðunni 27:23 en þá mættu Stjörnukonur formlega inn í annan leikhlutann og komust yfir í stöðunni 28:27.

Stjörnukonur gerðu síðan gott betur og náðu mest 11 stiga forskoti í stöðunni 47:36 þegar Kolbrún María Ármannsdóttir setti niður þriggja stiga körfu.

Keflavík tók í kjölfarið leikhlé enda rétt rúm mínúta eftir af leikhlutanum. Það skilaði því að Keflavík náði að minnka muninn niður í sex stig með góðum endaspretti og staðan í hálfleik var 47:41 fyrir Stjörnuna.

Thelma Ágústsdóttir skoraði 13 stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og Elisa Pinzan tók níu fráköst. Daniela Wallen var með fjórar stoðsendingar í fyrri hálfleik fyrir Keflavík.

Í liði Stjörnunnar var Kolbrún María Ármannsdóttir með 14 stig og Denia Davis-Stewart var með tíu fráköst. Ísold Sævarsdóttir gaf fimm stoðsendingar í fyrri hálfleik fyrir Stjörnuna.

Æsispennandi þriðji leikhluti

Keflavíkurkonur mættu af fullum krafti í síðari hálfleikinn og byrjuðu strax að minnka muninn. Þær komust síðan yfir í stöðunni 52:51 og náðu fjögurra stiga forskoti. Stjarnan jafnaði í stöðunni 55:55 en Keflavík komst aftur yfir 57:55. Stjörnukonur náðu síðan aftur forskotinu í stöðunni 58:57 en Keflavík jafnaði fyrir lok leikhlutans og staðan eftir þriðja leikhluta var 60:60 og allt í járnum.

Fjórði leikhluti var ævintýralegur og jafnt á öllum tölum nánast allan leikhlutann. Keflavík lagði þó grunninn að sigrinum með fjögurra stiga sókn þegar Anna Ingunn Svansdóttir setti þriggja stiga körfu og fékk vítaskot að auki sem hún nýtti.

Staðan var 64:60 fyrir Keflavík. Stjörnunni tókst að jafna í tvígang í stöðunni 67:67 og 68:68. Keflavík náði síðan aftur fjögurra stiga forskoti í stöðunni 74:70 og þann mun náði Stjarnan ekki að jafna.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Stjörnukvenna fór svo að lokum að Keflavík vann sigur 81:76.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 20 stig fyrir Keflavík og Daniela Wallen tók 17 fráköst og var með níu stoðsendingar.

Í liði Stjörnunnar var Denia Davis-Stewart með 20 stig og 24 fráköst. Ísold Sævarsdóttir gaf sex stoðsendingar.

Það verður því sannkallaður Suðurnesjaslagur þegar Keflavík og Njarðvík mætast í úrslitaviðureign Íslandsmóts kvenna í körfubolta á fimmtudaginn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Keflavík 81:76 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert