Bjarni átti eftir að sjá skýrsluna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var með klukkustundarfyrirvara í morgun að útgáfu skýrslunnar Fjármálastöðugleiki yrði frestað. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hafðist ekki að kynna skýrsluna fyrir stýrinefndum þar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á sæti.

Kynning á skýrslunni átti að fara fram klukkan 10 í dag en rétt fyrir klukkan níu var fundurinn afboðaður og útgáfu skýrslunnar frestað. Þar stóð m.a. til að kynna stöðug­leika­skil­yrðin.

Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabanka Íslands, segir það hafa orðið ljóst seinnipartinn í gær að fresta þyrfti útgáfunni. Aðspurður um skamman fyrirvara segir Stefán að dagsetningin hafi verið ákveðin fyrir löngu og að vonir hefðu staðið til þess að hægt yrði að klára málið. 

Frestað í fyrsta skipti

„Þetta tekur allt sinn tíma og það eru margir fundir sem þurfa að eiga sér stað og fara þarf í gegnum margs konar atriði og upplýsingar,“ segir Stefán. „Þetta er eins og umferð sem hlykkjast áfram á margreina akbraut. Síðan var þetta komið á það stig að það þurfti að stíga einhver lokaskref og komast yfir marklínuna.“

Ritið kemur út tvisvar sinnum á ári og ekki hefur þurft að fresta útgáfu þess áður. Aðspurður hvort það hafi verið óvenjulega umfangsmikið í þetta skiptið segir Stefán að verkefnið sé mjög stórt og tekur fram að margir þurfi að koma að því. „Við höfum ekki áður þurft að fara í gegnum þetta ferli. Þetta afnámsferli er einstakt sem betur fer,“ segir hann.

Viðamikið samráðsferli

Aðspurður hvort ritið gæti tekið einhverjum breytingum eftir kynningu fyrir fjármálaráðherra segir Stefán að gert sé ráð fyrir viðamiklu samráðsferli þegar um svona stórar og miklar ákvarðanir sé að ræða. „Það er almennt þannig, að þegar það kemur að stórum ákvörðunum í greiðslujafnaðar- og gjaldeyrismálum, sem varða miklu um þjóðarhagsmuni, þá kemur Seðlabanki Íslands með ráð og ber það undir viðkomandi ráðherra og jafnvel hluta Alþingis áður en ákvörðun er tekin.“

Ný útgáfudagsetning verður líklega kynnt síðar í dag en Stefán reiknar með að ritið komi út eftir nokkra daga.

Í Fjármálastöðugleika er tvisvar á ári birt yfirlit yfir stöðu fjármálakerfisins, þ.e. um styrk þess og hugsanlega veikleika og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga. Í ritinu greinir Seðlabankinn frá því hvernig hann vinnur að verkefnum sem varða virkt og öruggt fjármálakerfi.Fjármálastöðugleiki er einnig gefinn út á ensku undir heitinu Financial Stability

Frétt mbl.is: Frestar útgáfu skýrslunnar

Frétt mbl.is: Stöðugleikaskilyrðin kynnt

Fjármálastöðugleiki átti að koma út í morgun.
Fjármálastöðugleiki átti að koma út í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK