Konur alltaf að koma sterkari inn

Ásta segir mikla breytingu hafa orðið á bransanum síðustu ár. …
Ásta segir mikla breytingu hafa orðið á bransanum síðustu ár. „Bara ef maður skoðar bjóra Ölvisholts þá þóttu þeir stórskrýtnir fyrir tíu árum en eru orðnir hefðbundnir bjórar í dag. Það er búin að vera mikil þróun.“

Ásta Ósk Hlöðversdóttir hefur verið ráðin bruggmeistari Ölvisholts og er fyrsta konan til þess að gegna starfi atvinnu-bjórbruggara á Íslandi. Hún hefur störf hjá Ölvisholti í dag, á sjálfan bjórdaginn.

Í samtali við mbl.is segir Ásta að starfið feli í sér að halda áfram að brugga bjóra Ölvisholts og þróa nýja. Ásta hefur viðamikla reynslu af bjórgerð og var til að mynda önnur stofnenda hún/hann brugghúss sem tók þátt í Startup Reykjavík 2015. Þá var hún í  stjórn Fágunar, félags áhugafólks um gerjun auk þess sem hún hefur unnið til ýmissa verðlauna í keppnum innan íslenska bruggsamfélagsins.

Ásta lauk B.Sc. gráðu í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og hefur undanfarin ár kennt efnafræði og eðlisfræði við Háskólabrú Keilis.

Bruggbransinn sífellt að stækka

Ásta segist vera gríðarlega spennt fyrir nýja starfinu enda hafi hún tengsl við Ölvisholt. „Ég byrjaði í heimabruggi árið 2008 og það sem hjálpaði mikið til þá var einmitt stuðningur frá Ölvisholti. Þá voru þau að opna og ég gat fengið kork frá þeim og svona. Ég er með mikil tilfinningaleg tengsl við þetta brugghús og það er gaman að vera komin þangað.“

Aðspurð hvort að bruggbransinn á Íslandi sé stór segir hún hann frekar lítinn en sífellt að stækka. „Við þekkjumst flest og fólk vinnur saman og talar saman. Það er ótrúlega spennandi að sjá öll þessi litlu brugghús opna um allt land.“ Hún segir mikla breytingu hafa orðið á bransanum síðustu ár. „Bara ef maður skoðar bjóra Ölvisholts þá þóttu þeir stórskrýtnir fyrir tíu árum en eru orðnir hefðbundnir bjórar í dag. Það er búin að vera mikil þróun.“

Voru einu konurnar árið 2009

Eins og fyrr segir er Ásta fyrsta konan til þess að gegna starfi atvinnu-bjórbruggara á Íslandi. Hún segir bjórbransann frekar mikinn „karlabransa“ en segir hlutverk kvenna alltaf að verða meira. „Konurnar eru alltaf að koma sterkari inn. Þegar að bjórhátíð Kex var til dæmis haldin fyrst árið 2009 voru ég og konan mín og ein önnur kona einu konurnar. Þetta er að stórbreytast, bæði hjá bruggurum og áhugamönnum. Lengi vel var einkennisbúningur bjóráhugamannsins alskegg en það er ekki þannig lengur. En þetta er mikill karlabransi en fleiri og fleiri konur eru að átta sig á því að bjór getur verið ansi góður.“

Bjórframleiðsla hófst í Ölvisholti árið 2007 og er það eitt af fyrstu handverksbrugghúsum landsins. Brugghúsið er staðsett á uppgerðum sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss og framleiðir m.a. bjórana Skjálfta, Skaða, Sleipni, Lava og Móra.

Ásta segir nóg um að vera hjá Ölvisholti og ýmislegt framundan, m.a. sérstakur súkkulaðiporter bjór sem kemur á markað fyrir páska. „Síðan er verið að leggja drög að skemmtilegum sumarbjórum. Ég hlakka til að leggja drög að mínum fyrstu bjórum en gef ekkert upp um þá strax,“ segir Ásta.

Bjórframleiðsla hófst í Ölvisholti árið 2007 og er það eitt …
Bjórframleiðsla hófst í Ölvisholti árið 2007 og er það eitt af fyrstu handverksbrugghúsum landsins. Brugghúsið er staðsett á uppgerðum sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss og framleiðir m.a. bjórana Skjálfta, Skaða, Sleipni, Lava og Móra. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK