Flestir nota mat til að beita sig ofbeldi

Guðni Gunnarsson höfundur bókarinnar Máttur athyglinnar.
Guðni Gunnarsson höfundur bókarinnar Máttur athyglinnar. Kristinn Ingvarsson

Guðni Gunnarsson var að senda frá sér bókina Máttur athyglinnar – sjö skref að varanlegri velsæld. Þegar hann er spurður að því hvort það sé ráðlagt að breyta lífi sínu í janúar segir hann svo vera. Hann segir að það skipti máli að fólk sé tilbúið þegar það ákveði að gera breytingar. Fólk þurfi að viða að sér gögnum og til þess að fólk standi við yfirlýstar gjörðir sínar sé mikilvægt að hafa vitni svo við stöndum við umsamin loforð. Hann segir að fólk þurfi að fylgja hjartanu, ekki huganum því hann sé tvöfaldur. En hvers vegna?
„Það er mikill munur að tala frá einlægni hjartans eða tvöfeldni hugans. Heilahvelið skiptist í tvennt og hugurinn á það til að koma mismunandi skilaboðum á framfæri. Hugurinn segir þér á sama tíma að þú sért asni og frábær. Við erum flest að glíma við fortölur hugans. Hjartað er einlægt. Ávarp sálarinnar kemur frá hjartanu og er hreint,“ segir Guðni.

Hvernig er hægt að beisla hugann?

„Það er ekki hægt, en allt sem þú veitir athygli vex og dafnar. Það er ekki hægt að þvinga hugsanir. Við erum oft að veita því athygli sem við viljum ekki veita athygli. Það er ekki hægt að þvinga þetta. Besta leiðin er að vera í vitund og hætta að veita hugsunum og fortölum athygli.“

Talið berst að fjarverufíkn og segir hann að það sé of mikið vandamál.

„Hugsanir eru bara myndform, það eru þessar forsendur sem maður býr sér til. Það eru myndir sem maður raðar saman í umhverfi sínu. Þetta getur verið flókið, en þetta er í raun einfalt. Ef við náum því að allt sem þú veitir athygli vex og dafnar. Athygli er þungamiðjan, ef þú getur ekki haldið athygli þá hlýtur byrjunin að vera sú að endurheimta sitt eigið andartak. Bækurnar mínar ganga út á að sýna fólki að athyglin sé fyrsta skrefið og vakna til vitundar og þá er næsta skref að taka ábyrgð.“

Hvað einkennir fjarverufíkil? „Fólk getur ekki verið kjurt og er með þegar veikina. Að allt verði svo gott þegar við erum orðin grönn og svo framvegis. Fólki finnst það ekki vera nógu gott og hafnar sér. Þegar við viljum ekki vera með okkur finnum við okkur leið til þess að vera upptekin við annað. Sumir nota tölvur og sjónvarp, aðrir tóbak, áfengi og eiturlyf. Það sem fólk gerir sér ekki grein fyrir er að maturinn spilar stórt hlutverk. Við tyggjum ekki matinn, bælum tilfinningar okkar með mat og troðum okkur út af mat. Þegar við erum að borða erum við ekki að næra okkur heldur éta. Við erum að næra fjarveruna í stað þess að hlúa að okkur. Manneskja sem er í vitund notar ekki mjólk eða kók til að skola niður matnum. Flestir nota mat til að beita sig ofbeldi.Við borðum allt of mikið af eyðilögðum mat, mauksoðnum og erfðabreyttum.“

Guðni mælir með því í bókinni Máttur athyglinnar að fólk sleppi því að borða kjúkling, svínakjöt, hvítan sykur, hvítt hveiti, ger, áfengi, kaffi, flestar mjólkurvörur, dósamat og pakkamat.

„Kjúklingur er skíthoppari. Í dag er búið að hraða vaxtarstigi kjúklinga úr 12 vikum í sex vikur. Samt er búið að tvöfalda stærð og þunga þeirra. Þeir vaxa svo hratt og verða svo þungir að þeir standa varla undir sér.  Þurfum við ekki að spyrja hvernig er þetta hægt? Eru þetta galdrar? Kjúklingur er ekki náttúruleg næring,” segir hann. Aðspurður um kaffið segist hann sjálfur drekka kaffi en bara tvo bolla á dag í versta falli þrjá.
„Það er þessi ofnotkun sem ég er að tala um. Fólk þarf að vanda byggingarefnið. Við byggjum ekki kastala úr rusli heldur kot. Þegar það eru komin svona mikil aukefni í matinn þá þurfum við að spyrja okkur spurninga, er þetta næring?“

Hvað um sykurinn, hvers vegna eigum við ekki að borða hann? „Sykurinn er líkur áfengi, lifrin upplifir flestar tegundir af unnum sykri sem eitur. Fólk er að fitna af sykri ekki fitu. Það er komið svo mikið magn af sykri í alla matvöru. Það er allt orðið dísætt og saltað. Aðalmálið er að við berum samt ábyrgð. Það er ekki til fitandi matur, það er til fitandi fólk. Það er fólk sem kann ekki að segja nei, vill ekki taka ábyrgð á lífi sínu og lifir í sársauka. Það er hönd þín sem ber ábyrgð, það er hún sem færir þér matinn og tínir matinn úr hillunum. Þetta er ekki mannvonska, ég er bara að biðja fólk um að taka ábyrgð á sinni hegðun og framkomu við sig.“

Hvað þýðir að blómstra? „Það er ást, heimildin til að elska og heimildin til að leyfa sér að vera eins og maður er. Það sem einkennir alla sem eru hamingjusamir eru að þeir afneita sér ekki og hafa heimild til að vera eins og þeir eru.“

Guðni Gunnarsson.
Guðni Gunnarsson. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál