Þetta gerist ekki betra

Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður Íslands var afar sáttur með það hvernig íslenska liðið brást við því að lenda undir gegn Tékklandi í kvöld. Hann var reyndar ánægður með eiginlega allt við þetta fallega sumarkvöld í Reykjavík eins og hann orðaði það.

„Þeir voru með smá tök á okkur fyrstu mínúturnar en við náðum að snúa því við. Svo kemur þetta mark upp úr engu, hann smellhittir hann upp í samann og við bregðumst við því á frábæran hátt. Við verðum bara pirraðir og vöknum almennilega til lífsins og keyrum á þá,“ sagði Hannes.

„Þetta var stórkostlegur karaktersigur hjá okkur, erfiður leikur, jafn og lokaður en við gerðum virkilega vel,“ sagði Hannes og hélt áfram.

„Þetta var sætt að öllu mögulegu leyti. Það er æðislegt að vera kominn á toppinn og gaman að hefna fyrir síðasta leik. Að vinna hérna á heimavelli enn einn sigurinn á móti sterku liði á þessu fallega sumarkvöldi í Reykjavík. Þetta gerist ekki betra,“ sagði Hannes.

Nánar er rætt við Hannes í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert