„Þetta er rosalega mikill léttir“

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé enginn sem er eitthvað annað en glaður þessa dagana,“ segir Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Þórs/KA, eftir að búið var að skrifa undir nýjan samstarfssamning á milli Þórs og KA um sameiginlegan rekstur á meistaraflokki kvenna til næstu þriggja ára.

Sandra segir að þungu fargi sé nú létt af leikmönnum liðsins. „Við erum allar rosalega ánægðar. Það var líka gríðarlega skemmtilegt að fá að sjá búningana og spennandi að spila í nýjum búningum. Yfir höfuð er mjög spennandi að fá að spila áfram saman. Þetta er rosalega mikill léttir og það er ekkert annað en gleði sem ríkir á Akureyri núna,“ segir Sandra.

Meðal þess sem nýr samningur boðar eru nýir búningar í hlutlausum lit. Þeir voru kynntir í hádeginu. Aðalbúningurinn verður svartur en varabúningurinn appelsínugulur.

„Okkur líst mjög vel á þá. Við fengum ekki mikið að segja um þetta, en ég held að öllum hafi litist vel á þetta og við vitum að svartur getur ekki klikkað. Það er líka skemmtilegt að fá appelsínugulan varabúning, það er öðruvísi og skemmtilegt. Einhverjir halda að þetta sé líkt Fylkisbúningnum, en þetta er öðruvísi litur og mjög flottur,“ segir Sandra.

Sandra María Jessen og Ágústa Kristinsdóttir, í nýju búningunum.
Sandra María Jessen og Ágústa Kristinsdóttir, í nýju búningunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hótaði að hætta þjálfun hjá KA

Mbl.is fjallaði ítarlega um deilurnar á milli Þórs og KA og það var ljóst að mikill hiti var í samfélaginu á Akureyri. Sandra heldur að málið muni ekki hafa nein eftirköst.

„Ég held að þetta hafi haft góð áhrif á liðið til lengri tíma litið. Nú verður samstarfið ennþá betra og umgjörðin enn betri í kringum liðið. Að líta til baka held ég eiginlega að þetta hafi verið nauðsynlegt, að félögin myndu ná fullum sáttum. Það er mjög jákvætt.“

Sandra var ein af þeim sem var mjög harðorð eftir að KA birti einhliða yfirlýsingu um að framlengja ekki samstarfssamninginn í byrjun árs. Hún sagði meðal annars við mbl.is að hún vildi ekki lengur þjálfa hjá félaginu þar sem ákvörðunin hefði sært sig mikið.

„Ég tilkynnti KA það að ef svo færi að liðinu yrði skipt upp að þá myndi ég ekki vilja þjálfa þar lengur. En þar sem þetta endaði vel þá er engin ástæða að hætta þjálfun, svo stefnan er sett á að halda áfram að vinna fyrir KA sem ég stend við að sé flott og uppbyggilegt félag,“ segir Sandra.

Frá undirskrift samningsins í dag. Sandra María Jessen er í …
Frá undirskrift samningsins í dag. Sandra María Jessen er í aftari röð til hægri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Styttist í að hún geti farið að labba

Sandra sleit aftara krossband í landsleik við Noreg á dögunum, en betur fór en á horfðist. Hún setur stefnuna á að vera komin á kreik á nýjan leik eftir um þrjá mánuði, en hvernig hefur batinn gengið hingað til?

„Staðan á mér er ásættanleg. Það gengur allt eftir áætlun, verkirnir og bólgan eru að minnka og það styttist í það að ég byrji að labba. Það er fyrsta skrefið í því að spila fótbolta aftur, svo ég er bara jákvæð og andlega tilbúin í endurhæfinguna,“ segir Sandra, sem er ákveðin í að koma sterkari til baka.

„Ég held að þetta muni bara efla mig og að hafa margar jákvæðar fréttir í kringum sig núna tengt mínu félagsliði eflir mann bara í að vilja leggja meira á sig til þess að koma sterkari til baka. Ég held að allt sem hefur gerst á Akureyri síðustu vikur muni bara efla samheldnina í kringum liðið,“ sagði Sandra María Jessen í samtali við mbl.is.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert