Búinn að bíða eftir þessu í allt sumar

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er búinn að bíða eftir þessum leikjum í allt sumar og þetta verkefni leggst virkilega vel í mig,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Davíðs Snorri tilkynnti í dag leikmannahóp sinn fyrir umspilsleikina tvo gegn Tékklandi þar sem sæti í lokakeppni EM 2023 er undir.

Liðin mætast á Víkingsvelli í Fossvogi 23. september og síðari leikurinn fer fram í Ceske Budojovice í Tékklandi fjórum dögum síðar.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni og við erum að fara mæta hörkuliði þannig að maður finnur fyrir miklu stolti þessa dagana. Tékkneska liðið er virkilega gott lið sem er meira og minna samansett af leikmönnum sem spila flestir í Tékklandi.

Á sama tíma erum við á góðum stað líka og það hefur verið ótrúlega góður taktur í mínu liðið undanfarið árið. Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur og við erum alltaf að bæta okkur. Við eigum ágætis möguleika á því að komast áfram en þetta verða klárlega tveir hörkuleikir,“ sagði Davíð Snorri.

Íslenska liðið fagnar marki gegn Kýpur í sumar.
Íslenska liðið fagnar marki gegn Kýpur í sumar. mbl.is/Kristvin

Markmiðið að nálgast bestu þjóðirnar

Íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í síðasta glugga gegn Liechtenstein, Hvíta-Rússlandi og Kýpur.

„Ég var mjög ánægður með síðasta landsleikjaglugga hjá liðinu í júní. Við erum alltaf að reyna að bæta okkur og glugginn núna verður ekkert öðruvísi. Það er fullt af atriðum sem við getum lagað þó það sé líka fullt af hlutum sem ég er mjög ánægður með.

Markmiðið er að reyna nálgast þessar bestu þjóðir og við erum á réttri leið þó svo við séum ekki búnir að ná þeim ennþá. Vonandi fáum við fleiri leiki eftir þennan glugga og náum þannig að mæta bestu þjóðunum í júní á næsta ári.“

Nokkrir leikmenn í A-landsliðinu eru gjaldgengir í U21-árs liðið og gætu komið inn í hópinn hjá U21-árs liðinu ef það nær í góð úrslit í fyrri leiknum gegn Tékkum.

„Ég og Arnar ræðum mikið saman og staðan getur breyst viku fyrir viku. Arnar valdi sinn lokahóp í vikunni og ég gerði það líka. Ég er með mjög ánægður með minn leikmannahóp og það eru margir leikmenn hérna sem munu spila stórt hlutverk með A-landsliðinu á næstu árum,“ bætti Davíð Snorri við.

Leikmenn Íslands fagna sæti í umspilinu fyrir lokakeppni EM.
Leikmenn Íslands fagna sæti í umspilinu fyrir lokakeppni EM. mbl.is/Kristvin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert