Sagði við forsætisráðherra að við þyrftum svona völl

Jóhann Berg Guðmundsson kátur á blaðamannafundinum í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson kátur á blaðamannafundinum í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson, varafyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, lætur vel af þjóðarleikvangi Lúxemborgar, sem liðið leikur á í undankeppni EM 2024 og segir Ísland þurfa sambærilegan völl.

„Já, algjörlega. Katrín Jakobsdóttir [forsætisráðherra] mætti í morgunmat til okkar í morgun og ég sagði henni að við þyrftum að fá eitt stykki svona völl en það er kannski aðeins flóknara en að segja það,“ sagði Jóhann á blaðamannafundi á leikvanginum í Lúxemborg í dag.

Þar var hann spurður hvort hann vildi ekki að Ísland eignaðist keimlíkan völl.

Leikvangur Lúxemborgar er glæsilegur.
Leikvangur Lúxemborgar er glæsilegur. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þjóðarleikvangur Lúxemborgar sem var tekinn í notkun fyrir tveimur árum er allur hinn glæsilegasti, með yfirbyggðri stúku allt í kring sem tekur tæplega 10.000 áhorfendur.

„Þegar við komum inn á völlinn sáum við að þetta er frábær völlur og akkúrat það sem Ísland þarf. Við þurfum klárlega að hafa einn völl þar sem við getum spilað þessa nóvember- og marsleiki.

Ég tala nú ekki um núna þegar liðin okkar eru að komast inn í Evrópukeppni. Þá þurfum við einn völl. Það er mjög lélegt að við eigum ekki þannig völl.

Þetta er búið að vera í einhverjum nefndum í einhver tíu ár núna. Það er spurning hvort við þurfum ekki að gera eitthvað meira en að spekúlera í þessu,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert