Frakkar sitja eftir á EM

Nikola Karabatic, Thierry Omeyer og samherjar þeirra leika ekki um …
Nikola Karabatic, Thierry Omeyer og samherjar þeirra leika ekki um verðlaun í Póllandi. AFP

Þau óvæntu tíðindi gerðust á EM í handbolta í kvöld að ríkjandi meistarar Frakka komast ekki í undanúrslit mótsins. Króatar fara áfram úr Milliriðil 1 ásamt Norðmönnum eftir stórsigur á Póllandi 37:23. 

Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar og þar að auki heims- og ólympíumeistarar. Í undanúrslitum mætast þá Spánn og Króatía annars vegar og Þýskaland og Noregur hins vegar. 

Norðmenn tryggðu sér sæti í undanúrslitum fyrr í dag með sigri á Frökkum 29:24. Þar sem Króatía skellti heimamönnum þá urðu þessar þrjár þjóðir jafnar í 2. - 4. sæt milliriðilsins, Króatía, Frakkland og Pólland. Í innbyrðisviðureignum þeirra eru þau öll með einn sigur og því réði markatala í innbyrðisviðureignum þeirra úrslitum. Frakkar eru með 2 mörk í plús úr þeim leikjum en Króatar 6 mörk í plús og Pólverjar með átta mörk í mínus. Króatar töpuðu sem sagt með átta marka mun fyrir Frökkum en óvæntur stórsigur þeirra á gestgjöfunum í kvöld kemur þeim yfir hjallann. 

Pólverjar voru í góðri stöðu fyrir leikinn í kvöld og vissu að jafntefli eða sigur myndi fleyta þeim áfram ásamt Norðmönnum sem voru öruggir. Króatar hafa hins vegar verið óútreiknanlegir í mótinu. Léku frábærlega gegn Íslandi en töpuðu fyrir Norðmönnum og illa fyrir Frökkum. Það kemur hins vegar ekki að sök.

Þekktasti leikmaður Króatíu, Domagoj Duvnjak, skoraði aðeins 1 mark í 6 skotum í kvöld en Manuel Strlek skoraði hins vegar 11 úr 11 skotum.  

Manuel Strlek í leiknum í kvöld.
Manuel Strlek í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert