Terry vill taka við liði Chelsea

John Terry vonast til þess að geta stjórnað liði Chelsea …
John Terry vonast til þess að geta stjórnað liði Chelsea síðar meir. Reuters

John Terry, fyrirliði Chelsea og enska landsliðsins, kveðst ætla að gerast knattspyrnustjóri þegar ferli hans sem leikmaður lýkur og draumurinn sé að taka við stjórninni hjá Chelsea í fyllingu tímans.

Það verður þó ekki á næstunni, Terry er 28 ára gamall og vonast til þess að spila áfram næstu níu til tíu árin. En hann kveðst þegar vera byrjaður að viða að sér þekkingu og  fróðleik sem komi honum síðar að notum, og hann ætli að taka öll tilskilin þjálfarapróf á meðan hann er enn leikmaður.

„Ég hef leikið undir stjórn nokkurra frábærra manna og hef skrifað hjá mér ýmislegt sem þeir hafa gert. Ég hef líka skrifað hjá mér það sem mér hefur ekki líkað á þeirra æfingum, svo ég muni eftir að sleppa því. Þetta hljómar kjánalega í dag en vonandi kemur það að notum," sagði Terry í viðtalið við Daily Express í dag.

„Það væri frábært að geta orðið knattspyrnustjóri Chelsea og það væri besta þróunin. Ég myndi helst vilja stökkva beint í djúpu laugina. Ég veit að álagið er allt á stjórunum og það getur verið martröð að fást við leikmenn, en það skiptir ekki máli," sagði Terry, og upplýsti að auk sín væru Frank Lampard og Ashley Cole farnir að huga að þjálfaragráðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert