Gæti orðið svakalegur leikur

Stjórarnir. Sir Alex og Roberto Mancini.
Stjórarnir. Sir Alex og Roberto Mancini. Reuters

Það hefur verið um fátt annað talað í Manchester-borg síðustu dagana en viðureign Manchester United og Manchester City sem mætast í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í hádeginu á morgun.

Þetta er slagur tveggja efstu liðanna í deildinni en hið rándýra City-lið hefur tveggja stiga forskot á Englandsmeistarana og er þremur stigum á undan Chelsea en tvö síðast nefndu liðin hafa skipt Englandsmeistaratitlinum á milli sín allar götur frá 2004.

Nú telja margir að ljósbláu drengirnir úr Manchester City geti skákað United og Chelsea enda hefur miklu verið kostað til hjá félaginu undir stjórn vellauðugra kaupsýslumanna.

Sir Alex Ferguson, stjóri United, segir að viðureignin við City sé líklega sú stærsta frá því hann settist í stjórastólinn hjá félaginu árið 1986.

Ferguson: Búum okkur undir erfiðan leik

„Manchester City hefur staðið sig frábærlega vel og ef það hefði ekki misst niður tveggja marka forskot á móti Fulham þá væri liðið með 100% árangur. Þetta gæti orðið svakalegur leikur og ég er fullur tilhlökkunar. Stundum geta grannaslagir valdið vonbrigðum. Um síðustu helgi á móti Liverpool gerðist fátt fyrsta klukkutímann. En þegar markið kom í leikinn þá varð leikurinn frábær. City-liðið býr yfir mikilli reynslu og í því eru margir reynslumiklir leikmenn svo við búum okkur undir erfiðan leik,“ sagði Ferguson við fréttamenn í gær.

Mancini: Nógu sterkir til að fara alla leið

Byrjun City er sú besta hjá félaginu í efstu deild frá árinu 1897 en undir stjórn Ítalans Roberto Mancini tókst liðinu að vinna sinn fyrsta stóra titil í 35 ár á síðustu leiktíð þegar liðið varð bikarmeistari. Mancini segir að lið sitt geti vel unnið Manchester United á Old Trafford og geti einnig hampað meistaratitlinum.

„Við getum unnið United en bara ef við spilum vel. Ég tel að lið mitt og leikmennirnir séu nógu sterkir til fara alla leið og vinna titilinn. Reynslan og getan er til staðar. Það var mikilvægt að byrja tímabilið svona vel en markmið okkar fyrir tímabilið var að gera betur en í fyrra og ég tel að við eigum góða möguleika á að gera það,“ sagði Mancini.

Verður að taka City alvarlega

„City er komið upp fyrir United á stigatöflunni og það sýnir að það verður að taka liðið alvarlega í baráttunni um titilinn í ár. Þetta gæti orðið stærri leikur fyrir United heldur en leikurinn á móti Liverpool,“ sagði Gary Pallister, fyrrum fyrirliði Manchester United, við BBC.

„United tapaði aðeins tveimur stigum á heimavelli á síðustu leiktíð og á þessu tímabili hefur liðið unnið Tottenham, Arsenal og Chelsea á Old Trafford. Þetta er ótrúlegur árangur og með þann stuðning sem United verður með þá er það sigurstranglegra en ég held að það ráði miklu hvernig City mun nálgast leikinn.

» Manchester City er efst í deildinni fyrir leikinn á morgun með 22 stig af 24 mögulegum úr fyrstu 8 umferðunum.
» Manchester United er í öðru sæti, er líka taplaust og með 20 stig. Þar á eftir koma Chelsea með 19, Newcastle með 16 og Liverpool með 14 stig.
» Leikurinn á Old Trafford hefst klukkan 12.30 að íslenskum tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert