BAR áformar að kalla Villeneuve til starfa

David Richards, liðsstjóri BAR, og Jacques Villeneuve ræða málin.
David Richards, liðsstjóri BAR, og Jacques Villeneuve ræða málin.

Jacques Villeneuve segir hann og David Richards liðsstjóra BAR hafa grafið stríðsaxir sínar og sé hann nú reiðubúinn að snúa aftur til starfa hjá liðinu. Í breska vikuritinu Autosport, sem út kemur á morgun, er því haldið fram að unnið sé að því að „frysta“ Jenson Button frá keppni á næsta ári og láta Villeneuve keppa í staðinn.

Villeneuve var snöggur til er hann frétti að Button hygðist yfirgefa BAR og keppa fyrir Williams á næsta ári. „Fyrsta sem ég gerði var að endurbyggja allar þær brýr sem fyrir hendi voru. Ég hringdi í David Richards, [tæknistjórann] Geoff Willis, Honda, BAT, alla. Ég hef og haldið sambandi við [yfirvélfræðinginn] Jock Clear frá því ég sagði skilið við liðið.

Villeneuve, heimsmeistari í Formúlu-1 árið 1997, fór í fússi frá BAR fyrir tæpu ári en segir þau leiðindi heyra sögunni til. „Við höfum hreinsað andrúmsloftið, ég hef ætíð litið á fortíðina sem lokaða bók og aðeins horft fram á við,“ segir Villeneuve í Autosport.

„Ég hafði samband til að láta þá vita að ég væri til í slaginn. Viðbröðgin frá Honda voru einkar jákvæð, raunar einnig frá David. Við getum strikað yfir fortíðina og ég er viss um að við getum náð saman,“ segir Villeneuve við Autosport.

Villeneuve segist sannfærður um að hann sé rétti maðurinn til að leysa Button af hólmi. „Hvers vegna er ég rétti maðurinn fyrir BAR? Jú, þeir þurfa mann sem getur aðlagast liðinu mjög fljótt. Ég hef reynsluna, veit hvað þarf að vinna og hef unnið áður.

Ég gekk í gegnum erfiðustu tíma liðsins með mannskapnum og við lifðum það allir af þar til í ár, þar til allt breyttist. Ég á því verki ólokið og ég er hungraður. Fyrir hendir er traust og virðing innan liðsins, við vélvirkjana, tæknimennina. Hið sama gildir um Honda - viðbrögð þeirra sýna að það logar enn í gömlum glæðum,“ bætir Villeneuve við.

Ráðabrugg um að koma Button úr keppni?

Því er haldið fram í Autosport, að í herbúðum BAR séu uppi áform um að ráða Villeneuve til að keppa á næsta ári jafnvel þótt liðið vinni dómstólaþrætu um Button.

BAR telur sig vera með geirnegldan samning við Button en hann ætlar sér til Williams. Kemur því til kasta sérstaks samningsréttarráðs formúlunnar að úrskurða hvort BAR hafi samning við ökuþórinn eður ei.

Semjist ekki í þeirri deilu milli ökuþórsins og liðsins - eða bæti Williams ekki brottför Buttons með peningafúlgu til BAR - kann málið að verða rekið fyrir dómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert