BAR-liðið ánægt að halda í Button

BAR-liðið kveðst ánægt að halda í Jenson Button.
BAR-liðið kveðst ánægt að halda í Jenson Button. mbl.is/barf1

BAR-liðið segist í yfirlýsingu í kvöld vera einkar ánægt með að halda í Jenson Button á næsta ári en fyrr í dag úrskurðaði samningsréttarráð formúlunnar liðinu í hag í reiptogi þess og Williams um Button.

„BAR er yfir sig ánægt með staðfestingu samningsréttaráðsins á því að samningur liðsins við Jenson Button sé eini gildi samningurinn hvað hann varðar árið 2005.

Jenson heffur gegnt lykilhlutverki í góðum árangri BAR-liðsins á þessari vertíð og þeirri á undan; einkum og sér í lagi í ár þegar liðið gerir sér vonir um að hafna í öðru sæti í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða,“ segir í yfirlýsingunni.

Button gerði í sumar samning við Williams um að keppa fyrir það næstu tvö árin en með liðinu hóf hann keppnisferil sinn í Formúlu-1 árið 2000. BAR hélt því þá þegar fram að samningur sinn við ökuþórinn fyrir næsta ár væri pottþéttur og á það féllst samningsréttarráðið í dag.

„Vitaskuld er ég svekktur en en tel það vera grundvallaratriði að virða niðurstöðuna. BAR-liðið hefur komið fram af stakri fagmennsku á keppnisvellinum meðan á þrætunni hefur staðið og ég býst við að áframhald verði á því. Ég hlakka til að ganga til liðs við Williams síðar,“ segir Button í tilkynningu sem Williamsliðið sendi frá sér í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert