Williams og Button lýsa vonbrigðum

Jenson Button kveðst svekktur að komast ekki til Williams.
Jenson Button kveðst svekktur að komast ekki til Williams. mbl.is/barf1

Liðsstjóri Williamsliðsins, Sir Frank Williams, segist svekktur yfir því að hafa beðið lægri hlut í orrustunni við BAR um þjónustu Jensons Button á næsta ári. Sömuleiðis lýsir ökuþórinn yfir vonbrigðum með niðurstöðuna.

Williamsstjórinn staðfesti jafnframt að liðið myndi láta hér við sitja og ekki freista þess með nokkru móti að fá úrskurðinum í þrætunni um Button hnekkt.

Sir Frank sagðist í sumar vera með „skotheldan“ samning við Button sem freistaði þess að láta á klásúlu í samningi reyna um það hvort hann gæti farið til Williams á næsta ári í stað þess að keppa áfram fyrir BAR.

Samningsréttarráð formúlunnar komst að þeirri niðurstöðu í dag að Button væri lagalega bundinn BAR út næsta ár.

„Eðlilega erum við svekktir yfir niðurstöðu ráðsins. Við tókum þá afstöðu að Jenson væri ökuþór sem vert væri að slást útaf og - á grundvelli öflugs lögfræðiálits - iðrumst við einskis yfir að hafa reynt að freista hans til okkar,“ sagði liðsstjórinn í kvöld.

„Samningsréttarráðið féllst á mörg okkar rök en dæmdi engu að síður gegn okkur. Við teljum að frekari lagaþrætur um þetta mál sé til hagsældar fyrir íþróttina. Þrátt fyrir niðurstöðu ráðsins varðandi næsta ár munum við halda nánu sambandi við Jenson með tilliti til ársins 2006,“ segir Sir Frank ennfremur.

Button, sem verður í þriðja sæti í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í ár eftir að hafa m.a. komist á verðlaunapall í 10 mótum, lýsti einnig vonbrigðum með niðurstöðuna.

„Vitaskuld er ég svekktur en en tel það vera grundvallaratriði að virða niðurstöðuna. BAR-liðið hefur komið fram af stakri fagmennsku á keppnisvellinum meðan á þrætunni hefur staðið og ég býst við að áframhald verði á því. Ég hlakka til að ganga til liðs við Williams síðar,“ segir Button.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert