Alonso leið sem yfirgefnum manni

Alonso á blaðamannafundinum í Suzuka í dag ásamt Jarno Trulli …
Alonso á blaðamannafundinum í Suzuka í dag ásamt Jarno Trulli (t.v.) og Jenson Button (t.h.). ap

Fernando Alonso sagði á blaðamannafundi í Suzuka í Japan í dag að hann hefði verið einmana í bíl sínum eftir fyrra þjónustustoppið í Sjanghæ sl. sunnudag, er Giancarlo Fisichella liðsfélagi hans og Michael Schumacher hefðu dregið hann uppi.

Á þessum mínútum sagði Alonso að sér hefði liðið sem yfirgefnum og hjálparlausum manni. Hann segist hafa upplifað svipað augnablik í bandaríska kappakstrinum í sumar. „Kannski hefði ég þurft á meiri hjálp að halda þá,“ sagði hann. En harðneitaði því hins vegar að milli sín og liðsins væri einhver gjá.

Alonso missti efsta sætið í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í Sjanghæ um síðustu helgi en hann hafði setið í fyrsta sæti frá vertíðarbyrjun. Kappakstrinum í Sjanghæ tapaði hann vegna mistaka í þjónustustoppunum tveimur.

„Það eru engin vandamál í gangi, mér fannst ég í níu eða tíu hringi í Sjanghæ eiga við vandamál í bílnum að stríða og ég var einmana, vissulega. Ég var fyrstur og liðsfélagi minn annar, en síðan drógu þeir [Fisichella og Schumacher] mig uppi og hurfu fram úr. Eftir að ég náði aftur upp hraða voru þeir of langt á undan.

Ætli þetta sé ekki eins og í fjöllunum í [hjólreiðakeppninni] Tour de France. Það springur hjá þér dekk og liðið og keppinauturinn halda áfram upp brekkuna, stoppa ekki. Það var svolítið erfitt að meðtaka,“ sagði Alonso. Hann sagðist hafa verið ósáttur við að þurfa að keppa við liðsfélaga sinn. „Ég tókst á við Fisichella í síðustu beygju hringsins, komst fram úr en hann fór aftur fram úr áður en ég komst svo eina ferðina fram úr aftur. Svona áhættusöm augnablik í návígi við liðsfélaga þegar þrjú mót eru eftir í titilslagnum eru óþörf,“ sagði Alonso.

Hann svaraði spurningu um hvort hann nyti fulls stuðnings liðsins þann veg að liðið gerði sitt allra besta. „Það hefur lagt mér til frábæran bíl, færði mér heimsmeistaratitil ökuþóra í fyrra og gerir mér kleift að keppa um hann aftur í á. Það er því ótrúlegt hvað liðið gerir mikið í hverju móti og við erum jafnir í keppni ökuþóra og með forystu í keppni bílsmiða.

Alonso sagði að þótt hann nyti óskoraðs stuðnings frá Renault gaf hann til kynna að forgangsatriði væri þó af þess hálfu að vinna keppnina um heimsmeistaratitil bílsmiða.

„Allt liðið, allur mannskapurinn, keppir að meistaratitlunum. við höfum verið í forystu allt árið og keppnisgleðin er mikil fyrir síðustu mótin. Andrúmsloftið innan liðsins er frábær, sérhver liðsmaður einblínir á titilslaginn. En fyrir liðið sjálft er mikilvægara að vinna bílsmiðatitilinn,“ sagði Alonso.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert