Renault með nýjan framvæng

Fisichella og Kovalainen verða með nýjan og betri framvæng í …
Fisichella og Kovalainen verða með nýjan og betri framvæng í dag. mbl.is/renaultf1

Renaultbílarnir verða búnir nýjum framvæng er þeir mæta til leiks í æfingum og tímatökum Mónakókappakstursins í dag. Vonast liðið til að hann bæti samkeppnisfærni bílanna.

Í framhaldi af því að Giancarlo Fisichella setti fimmta besta tímann á seinni æfingunni á fimmtudag, þrátt fyrir að hafa þurft að skipta um bíl vegna áreksturs á fyrri æfingunni, eru heimsmeistararnir ákveðnir í að standa sig betur í Mónakó en í fyrri mótum ársins.

Framvængurinn er nýrrar hönnunar og svo nýr er hann af nálinni að ekki tókst að ljúka smíði hans í bílsmiðjunni í Enstone í Englandi fyrr en í fyrradag, sama dag og frjálsu æfingarnar fóru fram í Mónakó.

Nýju trjónunni er ætlað að auka vængpressu og þar með hraða á götum Mónakó. „Framfarir í bílnum er augljósar og hann verður bættur enn frekar fyrir tímatökurnar,“ sagði liðsstjórinn Flavio Briatore við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport eftir æfingarnar á fimmtudag.

„Við ættum að geta keppt um sæti á tveimur til þremur fremstu rásröðunum. Og héðan í frá verður það svo; við höfum átt við vandamál að stríða en erum að komast út úr þeim,“ bætti Briatore við.

Fisichella býst við betrumbótum með nýja vængnum. „Ég held okkur fari enn frekar fram með tilkomu hans,“ segir hann.

Kovalainen á ferð um hafnarsvæðið í Mónakó á frjálsu æfingunum …
Kovalainen á ferð um hafnarsvæðið í Mónakó á frjálsu æfingunum í fyrradag. mbl.is/renaultf1
Briatore við stjórnvölinn í Mónakó.
Briatore við stjórnvölinn í Mónakó. mbl.is/renaultf1
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert