Kubica vinnur fyrsta ráspól sinn og BMW

Kubica fagnar ráspólnum í Barein.
Kubica fagnar ráspólnum í Barein. ap

Robert Kubica var í þessu að vinna ráspól í Barein, hinn fyrsta á ferli hans og BMW í formúlu-1. Annar varð Felipe Massa á Ferrari sem var fyrstur alla tímatökurnar þar til á lokahring. Þriðji varð svo Lewis Hamilton á McLaren.

Massa hafði drottnað á æfingum og í fyrstu tveimur umferðum tímatökunnar. Kubica setti hins vegar saman einstaklega góðan hring og varð á endanum 27 þúsundustu úr sekúndu fljótari en Massa, sem einnig náði sínum besta tíma á lokahringnum.

Eftir fyrri fljúgandi hring lokalotunnar var Massa 11 þúsundustu á undan Kubica en á seinni hraða hringnum komst Hamilton fram úr báðum. Það var skammvinn gleði því Kubica ók stuttu seinna yfir marklínuna á tæpum tveimur tíundu úr sekúndu betri tíma. 

Fögnuður á stjórnborði BMW var mikill og þar ríkti spenna því Massa var enn í brautinni og millitímar hans gáfu til kynna að hann gæti allt eins endurheimt efsta sætið. Svo fór þó ekki og fagnaði Kubica sínum fyrsta ráspól og sömuleiðis BMW.

Räikkönen var aldrei með í keppninni um pólinn, var fimmti eftir fyrri fljúgandi hringinn í lokalotunni en hafði sig upp um eitt sæti í það fjórða á seinni hringnum.

Besti hringur Kubica var 0,7 sekúndum hraðari en tími liðsfélaga hans Nick Heidfeld sem getið gæfi til kynna mismunandi keppnisáætlun hjá þeim. Heidfeld varð sjötti og deilir þriðju rásröð með Heikki Kovalainen hjá McLaren.

Jarno Trulli hjá Toyota og Nico Rosberg hjá Williams deila fjórðu rásröðinni, en sá fyrrnefndi átti næstbesta tíma í annarri lotu.

Keppnin um að sitja ekki eftir í fyrstu og annarri lotu var harðari og tvísýnni nú en í fyrstu mótunum tveimur. Sebastien Bourdais á Toro Rosso komst í fyrsta sinn upp í aðra lotu en liðsfélagi hans Sebastian Vettel sat eftir. Hið sama átti fyrir David Coulthard hjá Red Bull að liggja.

Tímatökurnar mislukkuðust hjá Red Bull því Webber komst ekki áfram í annarri umferð. Hafði hann þó sett þriðja besta tímann á lokaæfingu fyrir þær.

Í annarri lotu sat Kazuki Nakajima hjá Williams eftir sem kemur á óvart vegna hraða hans á æfingum í gær og morgun. Varð hann í 16. sæti, einu á eftir Bourdais. Á síðustu stundu sátu Webber og Rubens Barrichello hjá Honda eftir í annarri umferð. 

Fernando Alonso hjá Renault var framan af í 11. sæti en komst upp fyrir Webber og Barrichello og tryggði sig áfram í lokalotuna með góðum lokahring. Jenson Button á Honda komast á síðustu stundu inn í lokalotuna sem tíundi maður. Er það í fyrsta sinn á árinu sem Honda hefur keppni meðal 10 fremstu. Í lokahrinunni vann hann sig fram úr Alonso og settist í níunda sætið á rásmarki.

Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3 Hri.
1. Kubica BMW 1:32.893 1:31.745 1:33.096 12
2. Massa Ferrari 1:31.937 1:31.188 1:33.123 12
3. Hamilton McLaren 1:32.750 1:31.922 1:33.292 13
4. Räikkönen Ferrari 1:32.652 1:31.933 1:33.418 12
5. Kovalainen McLaren 1:33.057 1:31.718 1:33.488 12
6. Heidfeld BMW 1:33.137 1:31.909 1:33.737 15
7. Trulli Toyota 1:32.493 1:32.159 1:33.994 19
8. Rosberg Williams 1:32.903 1:32.185 1:34.015 22
9. Button Honda 1:32.793 1:32.362 1:35.057 17
10. Alonso Renault 1:32.947 1:32.345 1:35.115 17
11. Webber Red Bull 1:33.194 1:32.371 12
12. Barrichello Honda 1:32.944 1:32.508 12
13. Glock Toyota 1:32.800 1:32.528 15
14. Piquet Renault 1:32.975 1:32.790 15
15. Bourdais Toro Rosso 1:33.415 1:32.915 15
16. Nakajima Williams 1:33.386 1:32.943 15
17. Coulthard Red Bull 1:33.433 7
18. Fisichella Force India 1:33.501 5
19. Vettel Toro Rosso 1:33.562 9
20. Sutil Force India 1:33.845 6
21. Davidson Super Aguri 1:34.140 9
22. Sato Super Aguri 1:35.725 5
Kubica í bílskúr BMW í Barein.
Kubica í bílskúr BMW í Barein. ap
Kubica á leið á ráspól í Barein.
Kubica á leið á ráspól í Barein. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert