Alonso: Ökumennirnir vilja frekar Massa sem meistara

Alonso kankvís við bílskúr Renault í Sjanghæ.
Alonso kankvís við bílskúr Renault í Sjanghæ. ap

Fernando Alonso hjá Renault segir hug ökuþóra formúlu-1 gagnvart heimsmeistaratitli ökuþóra þann veg, að flestir vilji þeir frekar að Felipe Massa hjá Ferrari vinni hann en Lewis Hamilton hjá McLaren.

Alonso hefur sagt að sér yrði ánægja af því ef hann gæti liðsinnt Massa í titilslagnum með því að verða á undan Hamilton í mark. Með öðrum hætti segist hann hvorki vilja né geta haft áhrif á keppni þeirra.

Þó segist Alonso helst vilja að Robert Kubica hjá BMW yrði heimsmeistari af þeim sem enn til greina koma í keppninni um titilinn. Milli þeirra er mikill vinskapur.

Ummæli Alonso, sem var liðsfélagi Hamiltons hjá McLaren í fyrra, hafa breskir blaðamenn tekið óstinnt upp. Saumuðu þeir að honum á blaðamannafundi í gær og spurðu hvort hann teldi Hamilton hættulegan ökumann. „Svara spurningunni ekki,“ sagði heimsmeistarinn fyrrverandi.

Spurður hvort hann  væri afbrýðissamur í garð síns gamla liðsfélaga hjá McLaren þar sem hann væri í stöðu til að vinna titilinn í ár svaraði Alonso: „Ég er mjög hamingjusamur“.

Eftir blaðamannafundinn sagði Alonso við fréttamenn spænsku sjónvarpsstöðvarinnar Telecinco í Sjanghæ:„Á þessu stigi titilbaráttunnar í fyrra sögðust allir vona að annað hvort ég eða Kimi Räikkönen hrepptum titilinn. Í ár vona allir ökumennirnir að Massa verði meistari. Ég held að þetta sé ekki mitt vandamál, heldur Hamiltons.“

Hamilton virðist vinafár meðal ökumanna formúlunnar.
Hamilton virðist vinafár meðal ökumanna formúlunnar. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert