Toyota dregur sig út úr formúlu-1

Japanski bílrisinn Toyota hefur ákveðið að draga sig út úr keppni í formúlu-1. Tekur ákvörðunin gildi þegar í stað. Heimskreppan og erfiðleikar í bílasölu eru sagðar ástæður brottfararinnar.

Ákvörðunin kemur á óvart að því leyti, að í sumar skuldbatt Toyota sig til þátttöku í formúlunni út árið 2012. Og á síðustu vikum hafði Toyotaliðið undirbúið þátttöku á næsta ári af kappi og m.a. reynt að fá þá Kimi Räikkönen og Robert Kubica til sín sem ökuþóra.

Efasemdir um framtíð Toyotaliðsins í formúlunni spruttu fram þegar í mars sl., eftir að japanski bílrisinn tilkynnti um taprekstur í fyrsta sinn í sögunni. Annað japanskt bílafyrirtæki, Honda, dró sig til baka fyrir tæpu ári af fjárhagslegum ástæðum og þýski bílrisinn BMW ákvað á miðju sumri að hætta einnig.

Toyota hafði einnig afsalað sér að halda japanska kappaksturinn í Fuji-brautinni, en þar fór mótið fram í fyrra og hitteðfyrra. Og vegna óvissunnar sem umlék Toyota ákvað Williamsliðið nýlega að slíta samstarfi við það og nota ekki lengur japönsku mótorana í bílum sínum.

Toyotaliðið skrifaði hins vegar í sumar undir skuldbindandi samkomulag um þátttöku í formúlu-1 út árið 2012, svonefndan concorde-samning. Og forsvarsmaður liðsins, John Howett, staðhæfði ítrekað að liðið yrði á rásmarkinu 2010 þótt ljóst þætti að það fengi mun minna fjármagn frá móðurfyrirtækinu til að spila úr.

Toyota hóf keppni árið 2002 og talið var að það myndi fljótt blanda sér í keppni á toppnum vegna gríðarlegs fjármagns og mikillar tækniþekkingar. Það rættist ekki og hefur liðið aldrei unnið mótssigur. Uppskeran er þrír ráspólar og 13 sinnum sæti á verðlaunapalli í 139 mótum.

Besti árangur Toyota í stigakeppni liðanna er fjórða sæti árið 2005.


Toyoturnar sjást ekki meir í formúlu-1.
Toyoturnar sjást ekki meir í formúlu-1.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert