Ricciardo brosti breiðast

Daniel Ricciardo, ökumaðurinn með breiðasta brosið í formúlu-1, brosti breiðast eftir kappaksturinn í Montreal, og hafði ástæðu til. Rétt rúmlega tveimur hringjum frá marki tók hann fram úr Nico Rosberg hjá Mercedes og vann jómfrúarsigur sinn í íþróttinni.

Með sigrinum batt Ricciardo enda á drottnun Mercedesliðsins sem fram að Montreal hafði unnið hvern einasta kappakstur, eða sex. Keppnin var afar jöfn og skemmtileg og stöðubarátta ótrúlega jöfn og hörð um fyrstu sex til átta sætin alla leið frá því keppendur voru ræstir af stað og þar til í mark var komið eftir 70 hringi.

Kappaksturinn var eitilhörð og tvísýn glíma ökumanna Mercedes en aflrás þeirra virkaði ekki sem skyldi þegar keppni var hálfnuð og drógu aðrir bílar þá hægt og bítandi uppi. Höfðu Rosberg og Lewis Hamilton ekki lengur not af endurheimt bremsuorkunnar, KERS-búnaðinum.

Svo fór að Hamilton féll úr leik á 48. hring af 70 vegna bilunar í bremsukerfi Mercedesbílsins. Eftir það var spurningin hvort Rosberg tækist að halda forskotinu, sem hann hafði haft frá fyrsta hring, vegna orkuvandans. Varðist hann vel og lengi en átti ekki svar er Ricciardo lét til skarar skríða. Var þetta fyrsti sigur Red Bull liðsins í ár og þriðja pallsæti Ricciardo í röð.

Sebastian Vettel varð þriðji  en tveir verðlaunakandídatar féllu út við upphaf næstsíðasta hrings; Felipe Massa á Williams og Sergio Perez á Force India, eftir harkalegan árekstur sem skrifast á Massa því hann rak hægra framdekk í Perez á bremsusvæði við fyrstu beygju.

Rosberg styrkir stöðu sína

Þrátt fyrir annað sætið styrkti Rosberg stöðu sína verulega í titilslagnum og að sama skapi er brottfallið mikið áfall fyrir Hamilton vegna þeirrar keppni. Fyrir kappaksturinn var forskot Rosberg 4 stig en er nú 22 þar sem hann fékk 18 stig fyrir annað sætið.  

Rosberg hefur aflað 140 stiga af 175 mögulegum á keppnistíðinni; hefur unnið tvö mót og fimm sinnum orðið í öðru sæti í mark. Hamilton er með 118 stig og í þriðja sæti er nú Ricciardo meða 79 stig.

Mikið brottfall

Mikið brottfall var í kappakstrinum vegna áreksra og tæknilegra bilana, að meðtöldum Perez og Massa féllu 12 bílar úr leik, en þar sem innan við 10% vegalengdarinnar var eftir er áreksturinn varð teljast þeir hafa lokið keppni, Perez í ellefta sæti og Massa í því tólfta.

Dagurinn var einn sem Ferrari reynir að gleyma sem fyrst þar sem Fernando Alonso varð aðeins sjötti og Kimi Räikkönen aðeins tíundi.

Næsti kappakstur fer fram í Spielberg í Austurríki eftir hálfan mánuð, 22. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert