Mercedes heimsmeistari bílsmiða

Lewis Hamilton var í þessu að vinna sigur í rússneska kappakstrinum og liðsfélagi hans Nico Rosberg varð annar. Þar með hefur Mercedesliðið unnið heimsmeistaratitil bílsmiða í formúlu-1 í ár. Er þetta fjórða mótið í röð sem Hamilton vinnur.

Hamilton ók til sigurs eins og meistara sæmir, hóf keppni af ráspól en missti forystuna hluta úr fyrsta hring er Rosberg komst fram úr en klúðraði djarfri tilraun með því að bremsa of seint og eyðileggja dekkin í leiðinni. Varð Rosberg að fara inn til dekkjaskipta í lok fyrsta hrings en eftir það ók hann alla leið í mark og kom virkni harðari dekkjanna honum, Mercedes og liðunum öllum í opna skjöldu.

Með sigrinum jók Hamilton forystu sína á Rosberg í keppninni um titil ökumanna í 17 stig, 291:274.

Ekkert lið nær Mercedes

Þá nær ekkert lið Mercedes úr þessu í keppni liðanna, þýska liðið hefur hlotið 565 stig gegn 342 stigum Red Bull, 216 stigum Williams, 188 stigum Ferrari og 143 stigum McLaren. Titill bílsmiða, hinn fyrsti sem Mercedesliðið vinnur, er í höfn þótt þrjú mót séu enn eftir af vertíðinni.

Þriðji í mark varð Valtteri Bottas hjá Williams og fer af hólmi með met í brautinni, hann setti hraðasta hring dagsins og það á lokahringnum sjálfum, þegar dekkin hefðu ekki átt að leyfa það vegna ætlaðs slits. Þetta er í fimmta sinn sem Bottas klárar kappakstur á palli.

Annars verður ekki sagt að keppnin hafi verið spennandi og minna um návígi og framúrakstur en í flestum öðrum mótum. Mesta spennan var líklega á síðustu 10-15 hringjunum hvort dekkin myndu endast alla leið hjá Rosberg og hvort hann héldi þar með sæti á verðlaunapalli. Um tíma var gert ráð fyrir að hann skipti yfir á ný og mun afkastabetri dekk í lokin en hann ákvað að veðja á að halda áfram í stað þess að eiga hættu á að falla niður um einhver sæti og óvissu um hvort hann endurheimti pallsætið aftur.

Öflugir hjá McLaren

McLarenliðið kom vel frá kappakstrinum og er greinilega að sækja í sig veðrið á lokaaspretti vertíðarinnar. Jenson Button varð fjórði í mark og Kvein Magnussen fimmti, en hann varð að hefja keppni í 12. sæti vegna gírkassaskipta.

Fernando Alonso hjá Ferrari varð sjötti í mark eftir rimmu á lokahringjunum við Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem komst aldrei nógu nálægt til að freista framúraksturs og hafnaði í sjöunda sæti. Liðsfélagi hans Sebastiana Vettel varð áttundi, Kimi Räikkönen hjá Ferrari varð níundi og Sergio Perez hjá Force India tíundi. Komst hann alla leið í mark en stjórnendur liðsins vöruðu hann ítrekað við því í talstöðinni að hann gengi of hratt á bensínbirgðir. Lögðu þeir að honum að sækja ekki að Vettel og Räikkönen og hugsa heldur um að koma bílnum alla leið í mark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert