Ferdinand segir enska landsliðið hafa minnt á sirkus

Ferdinand tekur við fyrirliðabandinu af John Terry sem er meiddur.
Ferdinand tekur við fyrirliðabandinu af John Terry sem er meiddur. Reuters

Rio Ferdinand, leikmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, segir þjálfarann Fabio Capello hafa komið mun betra skipulagi og aga á landsliðshópinn. Hann segir líf leikmanna í kringum úrslitakeppni HM 2006 hafa verið farið að minna á sirkus.

Sven-Göran Eriksson stýrði enska landsliðinu á HM 2006, sem fram fór í Þýskalandi, en þar fengu leikmennirnir að hafa eiginkonur og unnustur hjá sér. Virðast sumir leikmanna hafa tapað einbeitingu og notið þess að baða sig í sviðsljósi frægðarinnar.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá vorum við eiginlega eins og sirkus þarna, með eiginkonur og kærustur í kringum okkur. Það var eins og enski hópurinn væri bara ein stór sýning,“ sagði Ferdinand sem verður fyrirliði enskra þegar þeir mæta Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM í kvöld.

„Þetta var eins og að horfa á leiksýningu og fótboltinn lenti næstum því í öðru sæti. Fólk hugsaði meira um hverju aðrir klæddust og á hvaða staði ætti að fara en enska landsliðið. Þetta endurspeglaðist í leik liðsins.

Núna eru hlutirnir komnir í lag og við stefnum í rétta átt. Ég vil ekki tala of snemma en maður sér samt að við erum að byrja á einhverju miklu, og vonandi endar það með stærri verðlaunum en við höfum fengið síðustu ár,“ sagði Ferdinand.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert