Hætti sem þjálfari eftir tíu mínútur í starfi

Balbo í búningi Fiorentina, hvar hann lék í eitt tímabil.
Balbo í búningi Fiorentina, hvar hann lék í eitt tímabil. Reuters

Gamla kempan Abel Balbo, sem lengst af lék knattspyrnu með Roma á Ítalíu, entist ekki lengi í starfi sínu sem þjálfari Treviso. Alkunna er að ört sé skipt um þjálfara í knattspyrnunni, en Balbo hlýtur að eiga metið, því hann sagði upp eftir tíu mínútur í starfi.

Balbo var útnefndur þjálfari Treviso á þriðjudag og ætlaði að stjórna sinni fyrstu æfingu sama dag. Hinsvegar mætti enginn leikmaður á æfinguna, sem rakið var til þess að leikmennirnir væru ósáttir við brottrekstur Luca Gotti, fyrrum þjálfara liðsins.

„Ég var þjálfari liðsins í aðeins nokkrar mínútur. Ég tók slæma ákvörðun og finnst ég hafa verið gerður að fífli. Það orðspor sem ég hef reynt að byggja upp á öllum mínum ferli er nú í hættu,“ sagði Balbo.

„Balbo er fagmaður sem hefði getað gert frábæra hluti með Treviso. Hann er á förum vegna þess að forsendurnar til að skila árangri eru ekki lengur til staðar,“ sagði Giuseppe Cannella, yfirmaður íþróttamála félagsins.

Fyrirliði Treviso, Riccardo Gissi, neitaði því að fjarvera leikmannana hefði eitthvað að gera með mótmæli.

„Við gátum ekki æft á þriðjudag því læknaliðið var ekki til staðar. En við mættum á miðvikudaginn.“

Treviso er í neðsta sæti Serie B deildarinnar og virðist ekki líklegt til að halda sér uppi.

Abel Balbo var í landsliði Argentínu á Hm ´90, ´94, og ´98 og gerði yfir 180 mörk á ferlinum, flest fyrir Udinese og Roma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert