Queiroz sagt upp störfum

Carlos Queiroz.
Carlos Queiroz. Reuters

Carlos Queiroz landsliðsþjálfara Portúgals í knattspyrnu var í kvöld vikið frá störfum. Ástæðan er slakt gengi liðsins í fyrstu leikjum þess í undankeppni Evrópumótsins og eins það að hann var settur í sex mánaða bann fyrir að hindra að lyfjapróf sem portúgalska landsliðið gekkst undir í maí gæti farið eðlilega fram.

Queiroz, fyrrum aðstoðarstjóri Manchester United, tók við landsliðsþjálfarastöðunni í júlí 2008. Portúgalar rétt náðu að tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM en þar voru þeir slegnir út af Spánverjum í 16-liða úrslitunum.

Portúgalar hófu undankeppni EM með því að gera 4:4 jafntefli á heimavelli gegn Kýpur og á þriðjudagskvöldið töpuðu Portúgalar fyrir Norðmönnum í Osló, 1:0. Þeir mæta Íslendingum á Laugardalsvellinum þann 12. október en þá verður nýr maður í brúnni hjá þeim portúgölsku.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert